Í nærmynd er Íris Ósk Ingólfsdóttir Íslandsmeistari í módelfitness.
Aldur og fyrri störf?
Ég verð 21 árs gömul í október. Ég hef starfað í allskyns störfum, hef unnið á Subway, Íslensku Hamborgarafabrikkunni, Hagkaup og starfa núna á hjúkrunarheimilinu Skjól og hef verið þar í u.þ.b. 3 ár með skóla.
Hvaðan ertu?
Ég er uppalin í Grafarvogi og bý þar enn.
Fjölskylduhagir?
Við erum fjögur í fjölskyldunni, faðir minn heitir Ingólfur, móðir mín Ædís og stóri bróðir minn Sævar. Við eigum tvær tíkur, Jasmín og Perlu og kærastinn minn heitir Viktor Berg.
Helstu áhugamál?
Líkamsrækt og fitness á minn hug og hjarta eins og er, annars hef ég mikinn áhuga á listskautum og hamborgurum.
Uppáhalds tónlist?
Ég er með mjög breiðan smekk á tónlist en hlusta almennt á Kiss FM eða FM957. Í ræktinni hlusta ég þó á eitthvað aðeins harðara eins og t.d. rapp, rokk og dubstep.
Uppáhaldskvikmynd?
Pétur Pan.
Hvaða bók tækirðu með á eyðieyju?
Einhverja Harry Potter bók.
Hvernig er fullkomin helgi?
Fullkomin helgi fyrir mig væri að byrja daginn á ljúffengum málsverði, fara á grjótharða lyftingaræfingu, kíkja í Spa-ið í Laugum eftir æfingu, borða góðann kvöldmat og ljúka kvöldinu í góðra vina hópi eða í bíóferð.
Hver er uppáhalds veitingastaðurinn?
Serrano, gæti borðað það í öll mál.
Uppáhalds óholli maturinn?
Góður hamborgari og franskar kemur efst í huga.
Uppáhalds holli maturinn?
Grillaður lax í marineringu frá Hafinu, sætar kartöflur og brokkolí.
Hvenær ferðu á fætur á morgnana?
Í kringum sex leytið ef ég fer í morgunbrennslu, annars klukkan sjö – hálf átta vanalega.
Hefur þú lent í vandræðalegu augnabliki?
Já, heldur betur og þó nokkur. Það fyrsta sem mér dettur í hug er þegar ég var á leið í vinnuna einn morguninn með kærstanum mínum og við vorum bara nýlega byrjuð saman, það var flughálka úti og einhver bíll hafði fest sig. Við hjálpuðum honum og hann hann komst sína leið en þegar við vorum að labba í bílinn okkar flaug ég á rassinn og varð rennandi blaut, við hlógum okkur auðvitað máttlaus en þetta var frekar vandræðalegt móment þegar maður er nýbyrjuð að hitta strák.
Leikhús eða bíó?
Bíó allann daginn.
Uppáhalds íþróttamaður?
Ég lít mikið upp til Ms. Olympia Bikini, Ashley Kaltwasser.
Hvernig er týpískur dagur hjá þér?
Týpískur dagur hjá mér byrjar í kringum 6 leytið, þá fer á ég á morgunbrennslu, fer svo í vinnuna og fæ mér morgunmat þar, vinn til að verða fjögur, fer heim eftir vinnu og skipti út fötum fyrir lyftingaræfingu, blanda pre-workout drykkinn minn og fer í World Class Laugar á æfingu. Eftir æfingu fer ég heim, elda kvöldmatinn og á sama tíma undirbý ég allt nesti sem ég þarf fyrir næsta dag. Þegar ég er búin að borða og allt er orðið klárt fyrir næsta dag slaka ég á, horfi kannski aðeins á einhvern þátt eða mynd og er svo oftast komin upp í rúm fyrir tólf og svo hefst þetta allt aftur.
Dagblöð eða netið?
Dagblöð í vinnunni, netið utan vinnu.
Kjöt eða fiskur?
Kjöt er alltaf gott en vanalega borða ég fisk.
Uppáhaldsdrykkur?
Drekk aðallega vatn og er ekki mikið fyrir gos, annars kemur Amino Energy sterkt inn og svo stundum Appelsín um helgar.
Hvaða bók ertu með á náttborðinu?
Dagbókina mína, mikilvægt að vera með eina svoleiðis til að halda skipulaginu upp á hundrað.
Hvað drekkurðu marga kaffibolla á dag?
Enga, mér finnst kaffi ekki gott.
Hver er draumaborgin til að ferðast til?
Ég fór til Los Angeles seinasta sumar og það er að mínu mati frábær borg og ég væri virkilega til í að fara aftur.
Hvað ætlarðu að gera á næstunni?
Planið hjá mér er að fara með kærastanum mínum til Svíþjóðar í október og horfa á hann keppa á Norðurlandamótinu í fitness, sjálf ætla ég að keppa á Bikarmótinu í nóvember og gera mitt allra besta þar og vonandi í framhaldi af því fara út að keppa, geri samt ráð fyrir því að það verði á næsta ári. Einnig er ég að stefna á að finna mér nýja vinnu, en ég var að klára stúdentinn úr Borgarholtsskóla núna í vor og langar að taka mér smá pásu frá skóla, en ekki of lengi samt. Svo fer ég með fjölskyldunni minni til Spánar um jólin.