Site icon Fitness.is

Freyja Sigurðardóttir í öðru sæti á European Cup Amateur

Freyja Sigurðardóttir hafnaði í 2. sæti á European Cup Pro mótinu sem fór fram í dag í Madríd. Mótið er sérstakt að því leiti að sigurvegarar í öllum flokkum eiga kost á að fá atvinnumannakort. Frá því Íslendingar hófu að keppa á erlendri grundu er þetta tvímælalaust það næsta sem íslenskur keppandi hefur verið frá því að næla sér í atvinnumannakort. Handhafar atvinnumannakorta eiga kost á að keppa á stórmótum þar sem miklar peningafjárhæðir eru í boði auk þess sem þeim gefst kostur á að gera samninga við alþjóðleg fyrirtæki í líkamsræktargeiranum. Upphefðinni við það að fá atvinnumannakort fylgir hinsvegar sá ókostur að handhafar þess mega ekki keppa á áhugamannamótum. Flest mót sem haldin eru í Evrópu eru áhugamannamót. Freyja hefði því þurft að hætta keppni hér heima og snúa sér að keppnum í Bandaríkjunum þar sem flest atvinnumannamótin fara fram ef hún hefði hirt gullið.

Freyja varð heildarsigurvegari á Íslandsmótinu í fitness fyrir skemmstu í Háskólabíói og er vafalaust í sínu besta formi þessa dagana. Fitnessfréttir óska henni til hamingju með árangurinn  en samkvæmt fésbókarstatus hennar er hún mjög sátt við þennan frábæra árangur og er farin að fá sér að borða…

Freyja frekar hress baksviðs eftir keppnina.
Exit mobile version