Þrekmeistarinn var haldin utandyra í fyrsta skipti við Þrekhöllina á Akureyri um helgina. 196 keppendur frá 20 æfingastöðvum víðsvegar um landið mættu til þessarar óvenjulegu keppni.
Brautin var sú sama og verið hefur en súrefnið var meira. Fyrirfram var því ekki mikil bjartsýni á að hægt yrði að bæta Íslandsmetin. Fjögur met féllu engu að síður. Hvort það er útiverunni að þakka veit enginn en höfðu sumir á orði að betur gengi á hlaupabrettinu. Snemma í maí er ekki gengið að sól og sumarhita vísum. Dagurinn byrjaði með glampandi sól og bláum himni en um hádegisbil kólnaði með norðanandvara, nokkrir rigningardropar féllu en þegar verðlaunaafhending hófst sýndi sólin sig aftur.
Kristjana Hildur Gunnarsdóttir sigraði í einstaklingsflokki kvenna með því að bæta eigið Íslandsmet um 10 sekúndur þegar hún fór á tímanum 15:37:21. Fyrir keppnina hafði hún með efasemdir um að hægt yrði að bæta metið þegar hún heyrði að keppnin yrði utandyra. Hún hafði ekki náð að bæta eigið met á tveimur síðustu Þrekmeistaramótum en ekki er annað að sjá en að útiveran hafi hjálpað til. Kristjana keppti einnig í fyrsta skipti í flokki 39 ára og eldri og yfirtók því Íslandsmet Hönnu M. Harðardóttur sem hafði staðið óhaggað í þrjú ár. Önnur á eftir Kristjönu varð Sólrún Sigurjónsdóttir sem fór á tímanum 17:21:62 og þriðja varð Þuríður Ásdís Þorkelsdóttir á tímanum 19:08:92. Þær þrjár áttu bestu tímana í flokki 39 ára og eldri en það skondna er að þær áttu sömuleiðis allar þrjár bestu tímana í opna flokknum. Þær stöllur skákuðu þannig yngri kynslóðinni. Í verðlaunaafhendingunni þurftu þær því ekki að stíga af pallinum til þess að taka líka við verðlaunum í opna flokknum. Kristjana bætti einnig á sig bikurum eftir gott gengi í liðakeppninni og tvenndarkeppninni.
Aðalsteinn Sigurkarlsson bætti Íslandsmet Sveinbjörns Sveinbjörnssonar í opnum flokki karla um 13 sekúndur þegar hann fór á tímanum 14:55:85. Aðalsteinn hefur verið að bæta tímann sinn jafnt og þétt á undanförnum mótum og kom þetta því ekki endilega á óvart. Þorsteinn Hjaltason, æfingafélagi Aðalsteins átti annan besta tímann í opnum flokki karla 16:08:35, en þriðji varð Sigurjón Ernir Sturluson sem fór á 16:30:20. Þorsteinn Hjaltason átti sömuleiðis besta tímann í flokki 39 ára og eldri. Hann vantaði 28 sekúndur á að bæta met bróður síns Jóns Hjaltasonar.
Kristjana Hildur Gunnarsdóttir keppti og sigraði líka í tvenndarkeppni með Vikari Sigurjónssyni á tímanum 13:34:83 sem er 10 sekúndum frá þeirra eigin Íslandsmeti. Þetta er einungis í annað skipti sem keppt er í tvenndarkeppni en hún er komin til að vera í Þrekmeistaranum. Tvenndarkeppnin fer þannig fram að konan byrjar á fyrstu greininni og tekur aðra hvora grein á móti félaga sínum. Að öðru leiti er framkvæmdin eins og í liðakeppninni. Birgitta Guðjónsdóttir og Unnsteinn Jónsson frá Bjargi á Akureyri urðu í öðru sæti í tvenndarkeppninni á tímanum 14:58:01 og The Swingers frá Laugasporti urðu í þriðja sæti á tímanum 15:33:53. The Swingers var liðsheiti þeirra Rúnu Einarsdóttur og Péturs Péturssonar.
Þegar liðakeppni karla og kvenna fer í gang er hasarinn í hámarki. Alls voru 25 lið mætt til keppni. 5 fræknar frá Lífsstíl í Keflavík sigruðu í liðakeppni kvenna á tímanum 13:39:71 en skammt á eftir þeim kom liðið Boot Camp Akureyri frá Átaki á tímanum 14:08:90. Liðið Scitec 1 frá Þrekhöllinni á Akureyri varð í þriðja sæti á tímanum 14:48:40. Í liðakeppni eldri en 39 ára sigraði Dirty Nine frá Lífsstíl í Keflavík á nýju Íslandsmeti. Þau fóru á tímanum 14:51:31 sem bætti Íslandsmetið um 29 sekúndur.
Í liðakeppni karla sigruðu 5 Tindar frá Bootcamp á tímanum 12:24:22. Þeir ógnuðu gildandi Íslandsmeti þar sem þeir voru einungis 33 sek frá meti SWAT sem staðið hefur óhaggað frá því haustið 2006. Í öðru sæti varð VN-liðið frá Fálkafelli á tímanum 13:32:28. Þriðju voru Bootcamp karlarnir frá Bootcamp á Akranesi en þeir fóru á tímanum 13:36:64. Í liðakeppni karla eldri en 39 ára sigraði Öldungaráðið frá Bjargi á Akureyri á tímanum 14:08:04. Þá vantaði einungis 28 sekúndur á að bæta Íslandsmetið.
Tekin var upp sú hefð að velja Þrekmeistara ársins. Hlýtur Þrekmeistari ársins veglegan farandbikar sem gefinn er af Lýsi hf. Valið stóð helst á milli þeirra Sveinbjörns Sveinbjörnssonar og Kristjönu Hildar Gunnarsdóttur. Bæði létu þau mikið að sér kveða á síðastliðnu ári en Kristjana varð fyrir valinu. Hún hélt því heim á leið hlaðin verðlaunagripum eftir vel heppnaðan Þrekmeistara.