Site icon Fitness.is

Fæðubótaefni með ketónum eru peningasóun

Kenningin sem byggist á því að ketónar fái líkamann til að halda að hann sé í sveltandi ástandi er byggð á sandi.

Fjölmiðlar sögðu nýlega frá hjólreiðamönnum á Ólympíuleikunum sem tóku fæðubótarefni sem innihéldu ketóna til að bæta árangur í keppni.

Náttúruleg framleiðsla líkamans á ketónum í gegnum efnaskipti veldur sælutilfinningu. Tilgangur hjólreiðamanna með því að taka ketóna er að seinka þreytutilfinningunni. Líkaminn notar fyrst og fremst glúkósa sem orkugjafa en hann getur einnig notað ketóna eins og asetón, asetóacetat og beta-hydroxybutyrat. Líkaminn framleiðir ketóna til að gefa heilanum orku þegar hitaeiningar í mataræðinu eru af skornum skammti.

Rannsakendur við Maastrichtháskólann undir forystu Philippe Pinckaers endurskoðuðu útgefnar rannsóknir á þessu sviði og komust að þeirri niðurstöðu að ketónar hafi engin áhrif á líkamlega frammistöðu. Niðurstöðurnar voru fyrirsjáanlegar vegna þess að ketónar eru lengur að mynda orku en kolvetni. Nýjasta rannsóknin sýnir fram á að ketóna-sölt geta aukið fituoxun en um leið hafa þau neikvæð áhrif á frammistöðu í æfingum. Niðurstöðurnar benda til að fæðubótarefni sem innihalda mikið af ketónum hafi mjög neikvæð áhrif á frammistöðu íþróttamanna.

Dr. Jonathan Little sem er höfundur rannsóknarinnar segir: „Ketóna-sölt mynda óeðlilegt magn ketóna í blóðinu á svipaðan hátt og gerist við langvarandi hungur. Þannig neyðist líkaminn til að nota fitu sem brennsluefni.“ Með hækkandi magni ketóna í blóðinu minnkar nýting líkamans á glýkógeni sem er forðaform glúkósa.

10 fullorðnir karlmenn tóku þátt í rannsókninni. Allir voru þeir í svipuðu líkamlegu formi. Þegar þeim var sagt að fasta fengu þeir um leið annað hvort beta-hydroxybutyrate ketónaösölt eða bragðbætta lyfleysu til samanburðar. Af handahófi framkvæmdu þátttakendurnir síðan ýmsar hjólreiðaæfingar. Niðurstaðan benti til að þeir sem fengu fæðubótarefni með beta-hydroxybutyrate ketónasöltum voru kraftminni en þeir sem fengu lyfleysuna.

Fæðubótarefni eru oft markaðssett í þeim tilgangi að bæta frammistöðu íþróttamanna. Slíku er ekki fyrir að fara í þessu tilfelli. Engar vísbendingar eru um að fæðubótarefni sem innihalda ketóna hafi áhrif á frammistöðu. Kenningin sem byggist á því að ketónar fái líkamann til að halda að hann sé í sveltandi ástandi er byggð á sandi. Eiginlega kviksandi. Ef eitthvað er hafa þessi fæðubótarefni nefnilega neikvæð áhrif.

(Sports Medicine vefútgáfa 16. júlí 2016; Applied Physiology, Nutrition and Metabolism, 2017; 42 (10): DOI: 10.1139/apnm-2016-0641)

Exit mobile version