Site icon Fitness.is

D-vítamín hefur smávægileg áhrif á vöðvastyrk

DvitaminpillurLíkaminn getur sjálfur framleitt D-vítamín þegar sólin skín á húðina svo sjaldan sem það gerist á Íslandi. Við fáum líka D-vítamín í gegnum mataræðið og þá helst úr feitum fiski. Nýverið hafa fjölmargar rannsóknir vakið athygli á mikilvægi D-vítamíns og fjölbreyttu hlutverki þess. Nokkrar nýlegar rannsóknir hafa sýnt fram á samhengi á milli D-vítamínskorts og óheilbrigðra beina, vöðvaslappleika, lítillar framleiðslu æxlunarhormóna, þolleysis og óheppilegs líkamsþyngdarstuðuls. Safngreiningarrannsókn sem framkvæmd var af belgískum vísindamönnum þar sem farið var yfir 30 handahófsvaldar rannsóknir þar sem 6000 manns voru í úrtaki benti til að bætiefni með D-vítamíni auki vöðvastyrk svolítið en hafi hinsvegar engin áhrif á kraft né vöðvamassa. Eðlilega hafa bætiefni með D-vítamíni mest áhrif á þá sem skortir D-vítamín (minna en 30 nmol í lítra) og 65 ára og eldra fólki. Fullyrðingar í fjölmiðlum undanfarið um að D-vítamín hafi mikið að segja fyrir árangur íþróttamanna virðast ekki eiga við rök að styðjast. Vissulega er D-vítamín mikilvægt og gegnir fjölmörgum mikilvægum hlutverkum fyrir heilbrigði. Það er hinsvegar eitt að skorta vítamín og annað að skorta það ekki. Ungt íþrótta- eða líkamsræktarfólk þarf vissulega á þessu vítamíni að halda eins og öðrum en það er óráðlegt að ætla því að hafa teljandi áhrif á árangur ef skortur var ekki til staðar.
(Journal of Clinical Endocrinology and Metabolism, 99: 4336-4345, 2014)

Exit mobile version