Site icon Fitness.is

Brjóstastækkanir

Sílikon – Hin þögla hætta

Ekki er hægt að segja annað en að sprenging hafi orðið í fjölda þeirra kvenna sem fara í brjóstastækkun. Hér á landi starfa nokkrir lýtalæknar sem framkvæma brjóstastækkunaraðgerðir á færibandi. Brjóstastækkun með silíkonpúðum er ekki ný af nálinni og hefur í raun verið við líði í áratugi, en hér á landi hefur orðið alger sprenging í fjölda aðgerða á stuttum tíma. Sjálfsímynd ungra kvenna í dag virðist byggjast að miklu leiti á stórum stinnum brjóstum. Kvikmyndir, kvikmyndastjörnur, fyrirsætur og tímarit hafa byggt það inn í vitund ungra kvenna að sæmilega stór og stinn brjóst séu nauðsyn. Það eru nefnilega fyrst og fremst ungar konur sem fara í þessar aðgerðir. Blái kvikmyndaiðnaðurinn sem jafnframt veltir meiru en sá hefðbundni í Hollywood skartar ennfremur nær eingöngu konum sem hafa farið í brjóstastækkanir. Sjálfsagt má velta lengi fyrir sér orsökum þess að svo margar konur vilji fara í þessar aðgerðir. Stinn brjóst hafa á sér ímynd æskunnar og karlar eru ákaflega hlynntir stynnum brjóstum þó raunin virðist vera sú að konurnar fari í þessar aðgerðir sín vegna fyrst og fremst.

Silíkon- og saltpúðar að verða staðalbúnaðurFólk sem stundar líkamsrækt er eflaust nokkuð meðvitað um eigið útlit og ef marka má þann fjölda sílikon- eða saltpúða sem vappa um í líkamsræktarstöðvum landsins þá er engu líkara en púðarnir séu að verða staðalbúnaður á ungum stúlkum. Mikil umræða á sér stað um það meðal karlmanna í það minnsta hvort hin eða þessi hafi farið í brjóstastækkun, en umræðan um áhrif og hugsanleg heilbrigðisvandamál þessara aðgerða er hinsvegar ekki jafn mikil. Líklegt þykir að margar af þeim stúlkum sem eru að hugsa um að fara í brjóstastækkunaraðgerðir æfi í líkamsræktarstöðvum landsins og af þeirri ástæðu þykir við hæfi að fjalla um aukaverkanir og neikvæðar hliðar þessara aðgerða. Eins og umræðan hefur verið síðastliðin ár hefur fyrst og fremst verið fjallað á jákvæðan hátt um brjóstastækkanir. Hér skal því litið á neikvæðu hliðarnar enda ýmislegt sem bendir til að skortur sé á upplýsingum hjá þeim sem framkvæma aðgerðirnar auk þess sem sjúkdómar og sýkingar geti verið fylgifiskar þeirra í meira mæli en lýtalæknarnir vilja meina.Í tímaritinu Veru var ítarleg umfjöllun um silíkonaðgerðir á konum og hér á eftir er gripið niður í þá umfjöllun með þeirra leyfi auk þess sem hægt er að lesa greinarnar sem birtust í Veru í fullri lengd á vefsetrinu fitness.is.

Hjá 80% kvenna höfðu brjóstapúðar sprungið innan tíu áraLandlæknisembættið hér á landi fékk senda tilkynningu frá Diana Zukerman, Ph. D. en hún er framkvæmastjóri National Center for Policy Research for Women and Families í Washington. Í tilkynningunni kom fram að hjá 80% kvenna höfðu brjóstapúðar sprungið innan tíu ára án þess að þær vissu af því. Þetta er svartur veruleiki sem kemur fram í nýlegri könnun Matvæla- og lyfjaeftirlits Bandaríkjanna.

Þegar er búið að fara fram á það við Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna að banna sölu á silíkoni til brjóstaígræðslu. Þessi frétt hefur valdið ótta meðal kvenna sem fengu silíkon í brjóst en lýtalæknar höfðu fullvissað margar þeirra um að brjóstastækkanirnar væru hættulausar og mjög sjaldgæft væri að púðarnir myndu leka. Rannsóknin þykir sérlega mikilvæg í ljósi þess að í henni kemur fram hin „þögla hætta“ sem fylgir því að púðarnir leki án þess að um það sé vitað. Í rannsókninni var notast við segulmælingu á konum sem höfðu verið með silíkonpúða lengur en sex ár. Niðurstöðurnar hefðu í raun getað orðið enn verri eins og á það sé bætandi vegna þess að í því úrtaki kvenna sem valið var hafði þriðjungur þegar látið fjarlægja brjóstapúðana vegna leka, sársauka eða annarra óþæginda og því voru þær ekki teknar með í rannsóknina. Það var ekki fyrr en nýlega sem lýtalæknar í Bandaríkjunum hófu að segja sjúklingum sínum að skipta þyrfti um brjóstapúða innan tíu ára. Það þýðir að kona á tvítugsaldri sem fer í slíka aðgerð gæti þurft að gangast sex sinnum undir slíka aðgerð. Ef saltvatnspúðar eru notaðir þarf að skipta um þá á fimm ára fresti.

40 íslenskar konur sækja um í skaðabótasjóði silíkonframleiðendaAð sögn Sigurðar Guðmundssonar, landlæknis er honum kunnugt um að ýmis sjúkdómseinkenni hafi komið fram hjá konum með silíkon brjóstapúða, eins og sýkingar, sjálfsofnæmi og víðtæk alvarlegri einkenni sem líkjast síþreytu. Hann segir að þar sem embættinu berist nær engar kvartanir eigi það erfitt um vik að aðhafast í málinu og hvetur konur til að láta í sér heyra hafi þær ástæðu til. Sigurði er þó kunnug um að 40 íslenskar konur ætli að sækja í skaðabótasjóð silíkonframleiðenda í Bandaríkjunum og segist munu útvega lækna til þess að skoða þær og aðstoða við að útfylla eyðublöð vegna skaðabótasjóðsins. Sigurður segir ennfremur að þörf sé á að brýna upplýsingaskyldu fyrir lýtalæknum og að hann sé á móti því að ungar stúlkur sem hafa ekki náð fullum þroska fari í brjóstastækkun. Þar er miðað við 20 til 21 ár. Að hans áliti er hér um samfélagsvanda að ræða sem rekja má til tísku- og kvikmyndaiðnaðarins. Heimild: Vera: 1.tbl.2001. Þar er ennfremur að finna fleiri greinar um þetta málefni.

Exit mobile version