Site icon Fitness.is

Breytingar á Bikarmóti IFBB í haust

IFBBlogo2016Að venju fer Bikarmót IFBB í fitness fram í haust. Vanalega hefur mótið verið haldið á tveimur dögum en að þessu sinni er ætlunin að halda það á einum degi, laugardaginn 19. nóvember. Dagskráin verður þéttskipuð og engin forkeppni verður í flestum flokkum. Hugmyndin er sú að taka klukkustundar hlé á dagskránni enda líklegt að áhorfendur séu ekki endilega að sitja allt mótið. Nákvæm dagskrá verður birt síðar.

Fjórir nýir dómarar bætast í hópinn

Í kjölfar prófs á nýafstöðnu Íslandsmóti bætast fjórir nýjir dómarar í hóp þeirra sem fyrir eru. Það eru þau Lára Kristín Jónsdóttir, Rakel Hjartardóttir, Kristjana Ösp Birgisdóttir og Bjössi Sveinbjörnsson. Alls eru því 19 virkir dómarar sem skiptast á að dæma á mótum IFBB hér á landi.

Hertar reglur um vensl dómara og keppenda

Sú regla hefur gilt fram til þessa að þegar dómarar og keppendur tengjast með nánum hætti er til siðs að viðkomandi dómari víki úr dómarasæti sínu og annar taki við þegar flokkur keppandans er dæmdur. Þetta hefur verið gert og gengið vel. Á undanförnum mótum hafa nokkrir dómarar þurft að víkja úr sætum sínum sem hafa verið að þjálfa keppendur.

Í flestum tilfellum hefur þetta fram til þessa átt við þegar skyldmenni eða nánir vinir eiga í hlut. Nýverið hefur það hinsvegar færst í vöxt að dómarar sem sumir starfa sem þjálfarar hafa sömuleiðis þurft að víkja úr sæti enda er það svo að margir af dómurunum sinna atvinnu sem tengist líkamsrækt með einum eða öðrum hætti, þar á meðal þjálfun enda dómarar oft mjög áhugasamir um líkamsrækt og þær keppnisgreinar sem henni fylgja.

Fyrir einungis örfáum árum var sjaldgæft yfir höfuð að keppendur réðu þjálfara til að undirbúa sig fyrir mót en undanfarið hefur það færst í vöxt og því þykir ástæða til að bregðast við því. Ætlunin er að herða reglurnar enn frekar um það hvenær dómarar víkja úr sæti sínu í takt við þessa þróun til að taka af allan vafa um tengsl keppenda og dómara. Til viðbótar við það að sjálfur þjálfarinn víki úr sæti mun því einnig farið fram á það hér eftir að ef um er að ræða fyrirtæki sem þjálfarinn starfar hjá þurfi sömuleiðis allir þjálfarar í sama fyrirtæki að víkja úr sæti þó að þeir hafi ekki persónulega komið að þjálfun keppandans. Sömuleiðis ef maki dómara er þjálfari einhvers keppanda þarf sá dómari líka að víkja. Það skiptir miklu að traust ríki um störf dómara, nógu erfið eru þau fyrir og því þykir rétt að herða reglurnar með þessum hætti.

Í kjölfar á þessum hertu reglum er vöntun á dómurum þrátt fyrir að fjórir nýjir dómarar hafi nýverið bæst í hópinn. Dómarar þurfa að gangast undir próf áður en þeir fá heimild til að dæma og áhugasamir eru því hvattir til að sækja um. Þær reglur gilda víða erlendis að ekki þykir æskilegt að virkir keppendur setjist í dómarasæti en þeir sem hafa áhuga og hafa hætt keppni eru hvattir til að þreyta prófið á næsta móti.

T-ganga breytist í I-göngu

Fram til þessa hefur verið tekin T-ganga í sumum kvennaflokkunum en á næsta móti verður framkvæmd I-ganga í samræmi við breyttar reglur á alþjóðlegum mótum. Dæmi um I-göngu má sjá á myndbandi hér að neðan.

 

Exit mobile version