Site icon Fitness.is

Bílsæti hækka klofhita karlmanna og draga úr frjósemi

Klofhitarannsókn hljómar sem grín, en er hið alvarlegasta mál. Hár klofhiti tengist minnkandi sæðisframleiðslu í eistum.

Flestir nýlegir bílar bjóða upp á þann lúxus að hægt er að hita sætin. Á köldum dögum getur það komið sér vel. Þessi lúxus hefur nú vakið athygli vísindamanna sem stunda frjósemisrannsóknir. Ástæðan er minnkandi frjósemi heillar kynslóðar ungra karlmanna og gruns um að ástæðan tengist upphituðum bílsætum og langvarandi kyrrsetu.

Dr. Andreas Jung og teymi þýskra vísindamanna sýndu fram á hækkun klofhita karlmanna sem notuðu upphituð sæti í 90 mínútur. Þessi klofhitarannsókn kann að hljóma sem grín, en er hið alvarlegasta mál. Hár klofhiti tengist minnkandi sæðisframleiðslu í eistum. Í sömu rannsókn kom einnig í ljós að langvarandi seta hækkaði klofhita.

En af hverju er klofhiti karlmanna svona alvarlegt mál? Kjörklofhitastig karlmanna fyrir eðlilega sæðisframleiðslu í eistum er ögn lægra en líkamshitinn. Þannig gengur sæðisframleiðsla í eistunum betur. Það er því ekki tilviljun að eistu karlmanna – og margra dýrategunda hanga utan á líkamanum.

Áhrif bílsæta á sæðisgæði voru ekki mæld og því er erfitt að meta langtímaáhrif hækkandi klofhita. Fleira veldur hækkuðum klofhita en bílsæti. Vísindamenn hafa rannsakað áhrif þess að sitja í heitum potti og klæðast hlýjum nærfötum. Draga má þann lærdóm af þessum athyglisverðu rannsóknum að karlmenn ættu að huga að klofkælingu ef þeim er umhugað um frjósemi.

(Fertility Sterility, 90: 335-339)

Exit mobile version