Site icon Fitness.is

Algeng verkjalyf geta verið stórvarasöm

Notkun NSAID-lyfja í smáum skömmtum skapar ekki mikla áhættu fyrir flesta en þegar haft er í huga hversu mikið fólk tekur af þessum lyfjum er ekki hægt annað en að vara við þeim.

Verkjalyf valda meiri skaða en áður var haldið

Flestir íþróttamenn hafa á einhverjum tímapunkti þurft á bólgueyðandi verkjalyfjum að halda. Meiðsli og tognanir eru fylgifiskar þess að stunda ákveðnar íþróttagreinar. Verkjalyf leika því ákveðið hlutverk á slæmum dögum.

Nú ber svo við að sterkar líkur eru á að verkjalyf valdi meiri skaða en áður var haldið. Hið virta British Medical Journal læknablað birti nýlega niðurstöður ítarlegrar rannsóknar sem teymi vísindamanna gerði á maraþonhlaupurum.

Sum verkjalyf, nánar tiltekið svokölluð NSAID-lyf (nonsteroidal andi-inflammatory drugs) eru bólgueyðandi lyf sem ekki eru sterar. Eitt þekktasta lyfið í þeim flokki hér á landi er ibuprofen.

Í 75% tilfella hjá maraþonhlaupurunum stuðluðu NSAID-lyfin að alvarlegum nýrnaskemmdum og hægðu jafnvel á bata vöðvavefja sem höfðu orðið fyrir meiðslum.
Verkjalyf eins og ibuprofen virka þannig að þau hægja á vinnslu líkamans á svonefndum prostaglandínum. Prostaglandín eru afleiður fitusýra sem líkaminn myndar þegar hann verður fyrir meiðslum. Fylgifiskur prostaglandína í meiðslum eru sárindi, bólgur og hiti.

Tilgangur verkjalyfjanna er að slá á einkennin sem fylgja meiðslunum. Prostaglandín hafa einnig æðavíkkandi áhrif sem verður til þess að blóðflæði eykst til þeirra svæða sem hafa orðið fyrir meiðslum.

Með því að taka NSAID-lyf eins og ibuprofen minnkar magn prostaglandína sem þannig dregur úr bólgum og æðavíkkunin minnkar.

Notkun NSAID-lyfja í smáum skömmtum skapar ekki mikla áhættu fyrir flesta en þegar haft er í huga hversu mikið fólk tekur af þessum lyfjum er ekki hægt annað en að vara við þeim.

Nýlegar rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að NSAID-lyf eins og ibuprofen geta aukið hættuna á hjarta- og kransæðatengdum áföllum, þar á meðal hjartaáföllum og heilablóðfalli. Samkvæmt vefnum Harvard Health Publishing sem haldið er úti af Læknadeild Harvardháskóla eru sterk vísindaleg rök að baki því að ráðleggja fólki að nota ekki NSAID-lyf, sérstaklega ef um hjartasjúklinga er að ræða. Ein og sér ætti áhættan gagnvart hjartatengdum vandamálum að nægja til að hætta að taka NSAID-lyf.

Notkun NSAID-lyfja í smáum skömmtum skapar ekki mikla áhættu fyrir flesta en þegar haft er í huga hversu mikið fólk tekur af þessum lyfjum er ekki hægt annað en að vara við þeim. Hvað hjartasjúkdóma varðar skapa NSAID-lyf ein og sér þó ekki stórkostlega hættu í samanburði við górillurnar í herberginu – reykingar, offitu, ofát og hreyfingaleysi.

Hvaða valkostir eru þá í stöðunni til að takast á við bólgur og verki vegna vöðvameiðsla? Kaldur ís sem lagður er við meiðslin getur dregið úr bólgum. Nýlegar rannsóknir sýna einnig að húðkrem sem innihalda menthol hafa kælandi áhrif og geta orðið að gagni. Köld böð hjálpa líka.

Annar valkostur er að sleppa öllum verkjalyfjum. Stundum er hægt að bíta á jaxlinn. Lækningamáttur líkamans sjálfs er mikill og oft er tími það eina sem þarf. Stunda æfingar, losna við spikið, fara í sjúkraþjálfun og nudd getur í sumum tilfellum gert gagn án aukaverkana.

Varast ber sérstaklega að taka lyf sem innihalda acetamínóphen (Tylenol) um leið og áfengi. Þegar þetta fer saman skapast hætta á lifrarskemmdum og í verstu tilfellum lyfrarbilun. Við lifrarbilun er engin lækning nema lifrarskipti.
Ef meiðslin eru það alvarleg að þola ekki bið er ráðlegast að leita læknis.

(The New York Times, 11. júlí 2017; Scandinavian Journal of Medicine & Health, vefútgáfa 4. ágúst 2017; British Medical Journal, vefútgáfa 5. júlí 2017; Microvascular Research, vol 107, september 2016, bls 39-45; Health.harvard.edu/heart-health/heart-safer-nsaid-alternatives; Visindavefur.is/svar.php?id=61709)

Exit mobile version