Site icon Fitness.is

Sjónvarpssamningur í höfn

Undanfarin þrjú ár hafa fáir sjónvarpsþættir verið sýndir um fitness- og vaxtarræktarkeppnir á vegum Alþjóðasambands líkamsræktarmanna (IFBB) í Ríkissjónvarpinu. Í dag var hinsvegar gengið frá samkomulagi við framleiðsludeild N4 um að framleiða sjónvarpsefni um keppnir á vegum sambandsins sem og þrekmeistarakeppnir.Fyrsta verkefni N4 samkvæmt þessu samkomulagi er að framleiða sjónvarpsþátt um Bikarmeistaramótið sem fer fram 24. nóvember í Austurbæ. Verður þátturinn sýndur viku síðar í Ríkissjónvarpinu. Að sögn Sigurðar Gestssonar eins forsvarsmanna Alþjóðasambands líkamsræktarmanna hér á landi er þetta samkomulag kærkomið þar sem mikill áhugi er á þessum keppnisgreinum. Í gegnum árin hafa verið framleiddir 18 sjónvarpsþættir sem allir hafa verið sýndir í Ríkissjónvarpinu. Það að ná að koma framleiðslu þessa sjónvarpsefnis aftur á beinu brautina eftir að hafa verið í ólestri síðastliðin þrjú ár er kærkomið skref. Sigurður segir ennfremur að ánægjulegt sé að ná að fá þessa sjónvarpsþætti sýnda í Ríkissjónvarpinu þar sem það sé staðreynd að þar sé mesta áhorfið og efnið sýnt í opinni dagskrá. Það er Fitness á Íslandi ehf sem kemur til með að standa straum af kostnaði við gerð sjónvarpsefnisins.

Exit mobile version