Site icon Fitness.is

Nýtt æfingatæki notað í þol- og styrktarpróf

DYNO er nýtt æfingatæki sem framleitt er af sömu framleiðendum og framleiða róðravélarnar sem þekktar eru úr fitnesskeppnunum hér á landi. Átakið í DYNO byggist á vindmótstöðu á svipaðan hátt og í róðravélunum. Þessi tækni gerir tækið mjög vel fallið til þess að aðlagast þörfum notandans og er mjög öruggt. Því fastar sem ýtt er eða togað því meira verður átakið. Átakið verður því alltaf jafn mikið og lagt er í það og getur orðið allt að 550 kg. Eins og á róðravélunum er DYNO með stafrænt skjáborð þar sem allar upplýsingar um átök, fjölda og annað kemur fram. Hægt er að sjá átak hverrar lyftu og einnig meðaltal nokkurra endurtekninga í einni lotu.

Viðurkennt af breskum yfirvöldum
Lengi hefur skort staðlað próf til þess að láta opinbera starfsmenn eins og lögreglumenn, slökkviliðsmenn og aðra sem eiga að uppfylla ákveðin skilyrði fara í gegnum. DYNO hefur nú verið viðurkennt af breskum yfirvöldum sem staðall sem nota skal fyrir þol- og styrkleikapróf. Neil Francombe sem kom hingað á síðasta ári og var keppnisstjóri á fyrsta Þrekmeistaramótinu hefur jafnframt umsjón með þjálfun sérsveita Lundúnarlögreglunnar. Neil hefur ennfremur umsjón með þol- og styrkleikaprófum sem sérsveitin fer í gegnum og að hans sögn er mjög hentugt að nota DYNO til þessara prófana, ekki síst vegna nákvæmra átaksmælinga. Einn af eiginleikum tækisins sem það hefur fram yfir hefðbundin tæki er að ekki þarf að velja fyrirfram ákveðna þyngd sem lyfta á. Ef átakið eykst hjá notandanum eykst átakið jafnharðan í tækinu.

 

Auðvelt að fylgjast með árangri

Önnur sérstaða sem DYNO hefur gagnvart hefðbundnum æfingatækjum er sú að hámarksátakið og lágmarksátakið í ferli lyftunnar er aldrei meira en notandinn þolir. Í hefðbundnum lyftum er gjarnan einn ákveðinn punktur í lyftuferlinu sem er veikastur fyrir og því ekki hægt að setja meiri þyngd á stöngina eða lóðabunkann en veiki punkturinn þolir. Sú þyngd er síðan ekki endilega nægilega mikil til þess að styrkja vöðvana þar sem þeir eru sterkastir fyrir. Í DYNO þarf ekki að hafa áhyggjur af veikasta punktinum í lyftuferlinu þar sem átakið er alltaf í samræmi við það sem notandinn leggur í það. Fyrir endurhæfingu eða sjúkraþjálfun hentar tækið því sérlega vel. Annar kostur gagnvart endurhæfingu er sá að auðvelt er að fylgjast með árangrinum vegna þess hversu nákvæmur og þægilegur stafræni skjárinn er til aflestrar. Þrátt fyrir sterkbyggt tæki og fjölhæft kemur verðið á því skemmtilega á óvart.

Það er Fitness á Íslandi ehf sem hefur umboð fyrir DYNO hér á landi. Sigurður Gestsson – Sími 462 5266

 

Exit mobile version