Margrét Edda Gnarr varð heimsmeistari í módelfitness í Kiev í Úkraínu 15. september. Hún keppti í 32 manna flokki á heimsmeistaramótinu en þetta er í fyrsta skipti sem íslendingur verður heimsmeistari í í fitness og því um risastór tímamót að ræða. Alls kepptu yfir 300 keppendur á mótinu í Kiev og auk Margrétar kepptu þrír aðrir íslenskir keppendur, þær Karen Lind Thompson, Olga Helena Ólafsdóttir og Auður Guðmundsdóttir. Karen Lind hafnaði í 12. sæti sínum flokki en þær Olga og Auður komust ekki í úrslit 15 efstu. Jóhann Norðfjörð alþjóðadómari sem ennfremur er þjálfari þeirra Margrétar og Karenar var með þeim í för en hann segir íslendingana vera í skýjunum yfir þessum frábæra árangri.
Þess ber að geta að sigurvegararnir sem höfnuðu í þremur efstu sætunum á síðasta heimsmeistaramóti eru orðnir atvinnumenn í dag. Nú ber svo við að Margrét er fyrst íslendinga til að verða atvinnumaður á vegum IFBB Alþjóðasambands líkamsræktarmanna. Möguleikarnir eru miklir þar sem líkamsrækt er risastór iðnaður og hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin ár. Heimsmeistaratitill Margrétar breytir öllu hvað framtíðarskipulag keppna varðar. Hún mun því væntanlega hefja sinn atvinnumannaferil strax á næsta ári.
Áður en Margrét Edda Gnarr hélt utan til keppni fór hún í forsíðumyndatöku fyrir Fitnessfréttir en það var Brynjar Ágústsson sem tók myndirnar af Margréti við þetta tilefni. Hann er tvímælalaust einn færasti ljósmyndari landsins og heldur úti vefsíðunni panorama.is.
Gefum Margréti orðið:
Ég heiti Margrét Gnarr en er alltaf kölluð Magga. Ég er fædd 16. febrúar 1989. Ég ólst upp í Vesturbæ Reykjavíkur og er KR-ingur í húð og hár. Ég á tvo yndislega hunda, Ronja og Dollý sem ég elska útaf lífinu. Ég starfa sem einkaþjálfari og býð upp á fjarþjálfun.
Síðan árið 2008 hef ég haft lúmskan áhuga á að keppa í módelfitness en á þeim tíma hafði ég rosalega lítið sjálftraust og ég vissi að ég yrði að vera mikið andlega sterkari til að fara í gegnum niðurskurðinn og keppa. Það var ekki fyrr en sumarið 2011 sem ég ákvað að kýla á þetta. Ég var þá loksins komin með sjálfstraustið sem ég þurfti og var staðráðin í að keppa. Eftir mitt fyrsta mót hef ég ekki geta stoppað!
Ég hef alltaf verið mikið í íþróttum síðan ég var lítil stelpa og byrjaði að stunda keppnisíþróttir þegar ég var 8 ára gömul. Ég byrjaði í listdansi á skautum og þegar ég var 14 ára færði ég mig yfir í bardagaíþróttina Taekwondo. Þá íþrótt hef ég æft í yfir 10 ár og er með svarta beltið.
Ég hef keppt 15 sinnum í Olympísku Taekwondo og alltaf lent á verðlaunapalli! Í dag er ég núverandi Íslandsmeistari í svarta beltis flokki kvenna og var þá einnig valin besti keppandi mótsins.
Ég hef keppt sex sinnum áður hjá IFBB síðan árið 2011 og fjórum sinnum náð mjög góðum árangri. Hér heima hef ég lent í þriðja, öðru og fyrsta sæti en ég vann minn flokk á IFBB Bikarmótinu 2012. Ég keppti svo árið 2012 á Arnold Classic í bandaríkjunum sem er eitt af skemmtilegustu mótum sem ég hef farið á og mögnuð lífsreynsla. Þar keppti ég í módelfitnessflokki D ásamt næstum 50 stelpum. Minn draumur á því móti var að allavega komast í top 10 en ég endaði í 4.sæti og var óendanlega sátt með það. Sigur á heimsmeistaramótinu er enn óraunverulegur en að sjálfsögðu framar villtustu væntingum.
Að keppa í fitness er eitt það skemmtilegasta sem ég geri en það sem er einnig ótrúlega skemmtilegt með þessi mót er að toppa formið og sviðsframkomuna á hverju móti. Það er alltaf eitthvað sem hægt er að bæta.
Ég á mér stóra drauma og minn draumur var að öðlast IFBB atvinnumannaskrírteini og eiga kost á því að keppa með þeim alla bestu. Ég byrjaði í þjálfun hja Jóhanni Norðfjörð í sumar og hefur hann hjalpað mer gifurlega mikið. Hann sér um öll mín æfinga og matarplön. Hann er án efa einn besti þjálfari landsins og ég væri ekki á þeim stað sem ég er á í dag án hans. Hann er alþjóðlegur IFBB dómari og veit því upp á hár hvernig formið og allt á að vera. Ég er honum óendanlega þakklát!
Ég æfi 6-9 sinnum í viku í Sporthúsinu, Kópavogi. Meðan ég er ekki að stefna á fitnessmót æfi ég Taekwondo í Einherjum í Grafarholti og með landsliðinu. Ég lyfti 5-6 sinnum í viku og tek svo oft eitthvað auka. Ég er mjög hrifin af Plyometrics og sprengikraftsæfingum. Eftir æfingar teygi ég alltaf á og nota bandvefsfoam-rúllur.
Mataræðið byggist á því að mér líði alltaf andlega og líkamlega vel. Það skiptir mig gífurlegu máli að mér líði alltaf vel. Ég borða mjög mikið af grænmeti, ávöxtum, hnetum, fiski og kjöti. Ég reyni að borða nokkuð jafnt af flóknum kolvetnum, próteini og hollri fitu. Ég er með mikið fæðuóþol og forðast allt sem veldur ofnæmisviðbrögðum en það eru mjólkurvörur sem innihalda laktósa og allar gervisætur. Svo leyfi ég mér alveg nammi og fæ mér svokallaðar svindlmáltíðir en ég reyni þá alltaf að halda því í hollari kantinum því mér líður best þegar ég borða holla og næringaríka fæðu.