Site icon Fitness.is

Hvað þarf að æfa mikiðtil að losna við bumbuna?

Lítil krúttleg bumba og björgunarhringur um miðjuna kann að fara sumum. Þegar árin líða dvína hins vegar krúttlegheitin, sérstaklega ef bumban stækkar og verður að alvöru ístru. Við getum bara sjálfum okkur um kennt. Það að fitna rækilega er okkar val. Val sem felst í einum munnbita í einu, val um að slaka á fremur en að hreyfa sig.

En hvað þarf að æfa eða hreyfa sig mikið til þesss að losna við meðalstóra bumbu? Öll hreyfing skilar árangri en hún þarf að ná ákveðnu lágmarki til að skipta sköpum. Það að fara í 20 mínútna gönguferð á hverjum degi hefur eflaust góð áhrif á efnaskipti og vellíðan. Þessi gönguferð hefur hinsvegar lítið að segja um stærðina á bumbunni.
Japanskir vísindamenn tóku saman niðurstöður fjölda rannsókna sem beinast að fitusöfnun á kviðsvæðinu. Tilgangurinn var að meta hversu lengi þyrfti að æfa til að snúa við fitusöfnun á kviðnum. Niðurstaðan var sú að það þyrfti að æfa eða hreyfa sig undir hóflegu álagi í að minnsta kosti eina klukkustund á hverjum degi. Röskleg ganga, skokk, þolfimi í hóptímum, þrektæki eða sambærileg hreyfing er það sem þarf til að draga úr kviðfitunni. Árangurinn er lítill ef hreyfingin nær því ekki að vera um klukkustund á dag.

Til að ná verulega góðum árangri í að losna við kviðfitu þarf að æfa meira en 10 tíma á viku. Erfðir eiga þátt í því hvernig fólk bregst við æfingum þar sem framfarir geta verið persónubundnar. Sumir taka lítið við sér eftir töluverðar æfingar á meðan aðrir geta losnað við kviðfituna með mun minna æfingaálagi.
Í stuttu máli er engin nákvæm formúla til fyrir fitubrennslu og æfingar. Í versta falli losna flestir við einhverja kviðfitu ef þeir stunda æfingar eða hreyfingu klukkustund eða meira á hverjum degi.

(International Journal Obesity, vefútgáfa)

Exit mobile version