Site icon Fitness.is

Féll alveg fyrir þessu

Við báðum Unni Krístínu Óladóttur, Íslandsmeistara í módelfitness að segja okkur frá sér og svara nokkrum spurningum sem varpa ögn betra ljósi þessi stúlka er sem hefur náð svona frábærum árangri í módelfitness.

Gefum Unni Kristínu orðið: „Ég er fædd í Danmörku en ólst upp í Kópavoginum. Ég útskrifaðist sem Gullsmiður í vor og er í 100% vinnu hjá pabba en hann er gullsmíðameistari. Ég er ný komin heim af norðurlandamóti í gullsmíði og gekk það mjög vel, mikil reynsla og mikil áskorun á sjálfa mig. Var einnig að hefja nám í meistarskólanum.

Ég bý í Garðabænum ásamt Andra Bergmanni unnusta mínum og syni okkar Aroni Óla sem er eins og hálfs árs og algjör gullmoli. Það er BRJÁLAÐ að gera hjá mér, að vera með fjölskyldu, í 100% námi, æfa 10 sinnum í viku, í meistarskóla og aukavinnu þarf mikið skipulag og aga. Gæti alveg þegið nokkra tíma í viðbót í sólarhringinn. Svo var ég að byrja með mitt fyrsta pósunámskeið, finnst það ótrúlega spennandi og gaman að geta leiðbeint og gefið öðrum góð ráð.

Hvað kom til að þú fórst að keppa í módelfitness?

Árið 2007 horfði ég á vinkonu mína keppa í módelfitness og féll alveg fyrir þessu. Ákvað að sigrast á feimninni og setja mér það markmið að stíga á svið, sem ég svo gerði ári seinna með fínum árangri.

Hversu oft hefurðu keppt og hvernig hefur gengið?

Ég hef keppt þrisvar sinnum, fyrst á bikarmótinu 2008 og lenti þar í 2. sæti svo á Íslandmeistaramótinu 2009 og lenti aftur í 2. sæti eftir það mót varð ég fljótt ólétt og átti strákinn minn í mars 2010

Um páskana 2011 ákvað ég að keppa í þriðja sinn og í mínu besta formi hingað til og vann loksins. “Allt er þegar þrennt er,” og ég er ekki hætt. Maður verður alveg háð þessu þegar maður byrjar.

Undirbúningur fyrir mót getur verið mjög erfiður og foreldrar mínir hafa stutt vel við bakið á mér. Systir mín sem er tveimur árum yngri en ég sér alveg um mig fyrir mót; brúnkuna, hárið og förðunina en hún hefur æft samkvæmisdans í mörg ár og er með þetta allt á hreinu. Hún hefur líka hjálpað mér með framkomuna á sviðinu og svo er ég búin að smita yngstu systur mína. Hún ætlar keppa í fyrsta sinn í unglingaflokki í módelfitness núna í nóvember.

Hvar æfirðu og hversu oft?

Ég er að æfa í Sporthúsinu – kann best við mig þar. Er með frábæran þjálfara sem heitir Valdís Sylvía Sigurþórsdóttir. Ég gæti þetta ekki án hennar. Hún hefur þjálfað mig fyrir öll mótin og núna erum við að undirbúa mig og fínpússa nokkra staði fyrir bikarmótið en ég hef alltaf náð að bæta mig á milli móta – finnst það skipta miklu máli.

Ég lyfti 6 sinnum í viku og æfi súlufitness þrisvar í viku. Súlufitnessið hefur hjálpað mér mikið, – byrjaði að æfa það eftir að ég átti strákinn. Hef aldrei verið í jafn góðu formi.

Hvernig er mataræðið í stuttu máli?

HOLLT. Ég er samt algjör nammigrís, kemst varla í gegnum daginn án þess að fá mér eitthvað sætt. Í stuttu máli, byrja daginn á hafragraut, svo kreatín og prótínshake fyrir og eftir æfingu, ávextir, hrökkbrauð eða egg í millimál og kolvetnaríkan hádegismat og próteinríkan kvöldmat og að lokum prótín fyrir nóttina. Ég reyni samt að hafa mataræðið eins fjölbreytt og ég get, engir tveir dagar eins – þá á ég við hádegis- og kvöldverðina.

Exit mobile version