Site icon Fitness.is

Breytingar á reglum Þrekmeistarans

Það stefnir í góða þátttöku á Þrekmeistaranum sem haldinn verður 30. apríl í ÍÞróttahöllinni á Akureyri. Nú þegar hefur fjöldi liða og einstaklinga skráð sig.Búist er við tveimur keppendum frá Bretlandi að þessu sinni, enda er vormótið opin keppni fyrir alla. Á síðasta móti sem var í haust voru 142 keppendur sem var þátttökumet. Skráningar eru ekki orðnar svo margar ennþá, en þær standa ennþá svo hver veit hvar þetta endar. Fjöldi þátttakenda hefur reyndar yfirleitt verið meiri á haustmótunum heldur en vormótunum og verður því spennandi að sjá hvort keppendafjöldi nálgist annað hundraðið þegar haustar. Vinsældir þrekmeistarakeppnana má eflaust rekja til þess hversu skemmtilegt er að taka þátt í keppninni. Andinn í þessum keppnum hefur ávalt verið mjög hress og bæði starfsmenn og keppendur hafa haft eintóma ánægju af þátttökunni. Þarna er líka komin keppni sem er fyrir hinn almenna líkamsræktariðkanda sem ekki kærir sig endilega um að standa hálf nakinn uppi á sviði eins og gert er í fitnesskeppnunum.
Ákveðið hefur verið að breyta reglum í uppsetum. Fram til þessa hafa keppendur þurft að snerta báðar hnéskeljar með olnbogum til þess að fá gilda lyftu. Hvað dómgæslu snertir hefur þessi æfing ein og sér verið helsta vandamálið vegna þess hversu misjanlega keppendum tekst að framkvæma hana. Búklengd, handleggjalengd og fótalengd er mismunandi og fyrir suma sem eru óheppnir hvað hlutföll þessara líkamsparta snertir er erfiðara að gera þessa æfingu en aðra. Breytingin felur í sér að ekki þurfi lengur að snerta hnéskeljarnar, heldur að snerta lærin fyrir ofan miðju með báðum olnbogum í einu og fara alveg niður að gólfi með olnboga. Haldið er allan tímann með fingrum við eyru. Þessi æfing hefur verið ein helsta uppspretta vandræða í keppninni bæði fyrir keppendur og dómara. Það skiptir miklu að geta dæmt keppendur út frá jöfnum forsendum og með þessari breytingu telja mótshaldarar að stigið verði skref í þá átt að auka líkurnar á því að allir keppendur keppi á jöfnum forsendum. Þeir sem eru að æfa fyrir þrekmeistarann eru því hvattir til að kynna sér þessar breytingar. Velkomið er að hafa samband við keppnisstjóra, Einar Guðmann í síma 846 1570 ef frekari skýringa er þörf.

Exit mobile version