Um 192 keppendur hafa skráð sig til keppni á Bikarmóti Þrekmeistarans sem fer fram um næstu helgi, laugardaginn 8. maí á Akureyri. Þetta eru fleiri keppendur en á síðasta Bikarmóti, en þá kepptu 173 keppendur.Hefð er fyrir því að fleiri keppendur keppi að hausti heldur en að vori í Þrekmeistaranum hvernig sem á því stendur. Á síðasta haustmóti kepptu um 370 keppendur og þótti nóg. Undirritaður verður því að viðurkenna að vera nokkuð feginn að það skuli „bara“ keppa 192 keppendur að þessu sinni. Hugsanlega á þessi tala þó eftir að hækka eitthvað.
Keppnin utandyra í logni og léttskýjuðu veðri?
Þrekmeistarinn verður með hefbundnu sniði að þessu sinni fyrir utan það að verið er að skoða möguleika á að halda keppnina utandyra fyrir utan Þrekhöllina. Veðurspáin hljóðar upp á 15 stiga hita, logn og léttskýjað. Þrekhöllin er nýja byggingin sem er á milli Íþróttahallarinnar og sundlaugarinnar. Stórt plan er við Þrekhöllina sem hægt væri að setja brautina á. Það að hafa brautina utandyra við þessar aðstæður gæti verið frábært. Ef veður breytist er hægt með litlum sem engum fyrirvara að færa brautina inn í Íþróttahöllina. Á milli eru einungis 100 m á jafnsléttu. Þessum möguleika verður því haldið opnum.
kv. Einar Guðmann