Site icon Fitness.is

„Ég ætlaði ekki að trúa því þegar búið var að kalla öll sætin upp nema fyrstu tvö og ég stóð þarna við hliðina á núverandi heimsmeistara.“

Ljósmynd: Arnold BjörnssonÁ forsíðu Fitnessfrétta, 2. tölublaði 2012 er Elva Katrín Bergþórsdóttir sem nýverið náði þeim frábæra árangri í módelfitness að hafna í öðru sæti á Evrópumóti IFBB á eftir núverandi heimsmeistara. Við báðum hana um að segja lesendum Fitnessfrétta frá sér.

Ég er tvítug, fædd og uppalin á Akureyri og bý þar með fjölskyldu minni og kærasta. Ég er í Menntaskólanum á Akureyri og er að útskrifast þaðan í júní.

Ég er mikil keppnismanneskja og hef alla tíð verið á fullu í íþróttum og æfði bæði fimleika og fótbolta lengi vel. Fyrsta fitnesskeppnin sem ég fylgdist með var Íslandsmótið 2010 og þá kveiknaði áhuginn. Fljótlega eftir það byrjaði ég í þjálfun hjá Sigurði Gestssyni og keppti svo í fyrsta skipti á Bikarmótinu í Nóvember það sama ár þar sem ég lenti í 6.sæti. Þessi íþróttagrein höfðar vel til mín þar sem ég er mjög metnaðarfull, öguð og elska að keppa við sjálfan mig. Eftir Bikarmótið setti ég stefnuna á Íslandsmótið 2011 þar sem ég sigraði +167 flokkinn. Ég sigraði svo aftur minn hæðaflokk núna á Íslandsmótinu 2012 ásamt því að sigra heildarkeppnina. Aðeins þremur vikum eftir Íslandsmótið keppti ég á Evrópumeistaramótinu sem var haldið í Santa Susanna á Spáni og endaði þar í öðru sæti. Ég er nýkomin heim og enganvegin búin að átta mig á þessu öllu saman.

Ég fór út með það markmið að komast í topp 6 og þegar ég vissi að ég hafði komist áfram var ég ótrúlega ánægð og fannst allt eftir það plús.

Ég ætlaði svo ekki að trúa því þegar búið var að kalla öll sætin upp nema fyrstu tvö og ég stóð þarna við hliðina á núverandi heimsmeistara. Ég fékk þvílíka gæsahúð og nánast tár í augun þegar ég horfði á mömmu mína og kærasta hoppandi af kæti út í sal þegar nafnið mitt var tilkynnt.

Ég æfi í Átaki við Skólastíg á Akureyri. Ég lyfti sex sinnum í viku og svo þegar nær dregur móti bætast við brennsluæfingar jafnt og þétt og æfi ég þá allt að 12-13 sinnum í viku. Sigurður Gestsson er þjálfarinn minn og hefur verið það frá upphafi. Hann á svo stóran þátt í velgengni minni enda reyndasti þjálfari á landinu. Ég á konu hans Kristínu Kristjáns einnig mikið að þakka en þau hafa bæði aðstoðað mig mikið fyrir öll mótin og eru mínar fyrirmyndir í þessu sporti.

Ég hef mjög mikinn sjálfsaga og fer 100% eftir því sem minn þjálfari segir en ef það er eitthvað sem ég hef lært þá er það að treysta sínum þjálfara og ekki vera að velta sér upp úr því hvað aðrir eru að gera.

Mataræðið mitt einkennist af hollum og næringarríkum mat og er til dæmis hafragrautur, skyr, epli og kjúklingur er í miklu uppáhaldi hjá mér hvort sem ég er að undirbúa mig fyrir mót eða ekki. Svo er nammidagurinn alltaf heilagur einu sinni í viku.

(Ljósmynd: Arnold Björnsson)

Exit mobile version