Sumir væru til í að gefa aleiguna fyrir sixpakk. Það er einhverra hluta vegna þannig að flottir magavöðvar eru lykillinn að flottu útliti í huga margra sem stunda líkamsrækt. Þetta er ástæðan fyrir því að flestir sem taka líkamsrækt alvarlega gera nokkrar mismunandi magaæfingar til þess að tryggja flotta magavöðva.

Það er ekki langt síðan við hjá Fitnessfréttum byrjuðum að skrifa um áhrif hinna ýmsu æfinga á vöðva – en það gerðist eftir að hægt varð að mæla vöðvaátak af mikilli nákvæmni með hjálp nýjustu tækni. Vísindamenn við Liberty háskólann í Bandaríkjunum mældu átak mismunandi magaæfinga til þess að sjá hvort mikill munur væri á virkni þeirra. Æfingarnar sem þeir mældu voru uppsetur, hallandi fótalyftur, liggjandi fótalyftur, fótalyftur á bolta, bretti, TRX og svonefndu krafthjóli. Skemst frá að segja var enginn mælanlegur munur á þessum æfingum nema sá að uppseturnar tóku minna á innri obliques vöðvana á hliðunum. Allar hinar æfingarnar reyndust taka jafn mikið á magavöðvana. Hver og einn þarf að gæta þess að velja sér magaæfingu sem tryggir að álag á hrygginn sé viðunandi. Það sem helst ber að varast þegar magaæfingar eru gerðar er að mynda of mikið álag eða sveigju á hrygginn til hliðar eða sveigja hann of mikið aftur.

(Journal Strength And Conditioning Research, 24: 3422-3426, 2010)