Allir bætiefnaframleiðendur selja eitt eða fleiri fitubrennslu-bætiefni sem fullyrt er að hafi mikil áhrif á fitubrennslu. Í dag eru þessi bætiefni með vinsælustu efnunum sem seld eru á þessum markaði. Sum þeirra eru sögð hraða efnaskiptum á meðan önnur eiga að draga úr frásogi fitu í meltingarferlinu og öll eiga þau að stuðla að léttingu og auka fituúrvinnslu í tengslum við æfingar.

Breskir vísindamenn við Háskólann í Birmingham fóru yfir rannsóknir og ritgerðir sem hafa verið gefnar út varðandi fitubrennsluefni og þeir halda því fram að einu bætiefnin sem studd séu af áreiðanlegum vísindalegum rannsóknum séu þau sem innihalda grænt-te og koffín. Ennfremur séu sannanir sem styðji virkni beigðar línólfitusýru (CLA), karnitíns, forskolin, króms og EGCG (kjarni úr grænu tei).

Vísindamennirnir benda á að sum fitubrennsluefnin séu virkari en önnur en hafa beri í huga að rannsóknir á léttingu hafi sýnt að hægt er að hafa áhrif á léttingu með einungis 300 hitaeininga fækkun á dag. Bætiefni geti því haft áhrif á léttingu þrátt fyrir að um sé að ræða óverulegan fjölda hitaeininga á hverjum degi sem þau halda frá aukakílóunum. Ögn betra aðhald í mataræðinu er því líklegt til að skila sambærilegum árangri.

(Obesity Reviews, 12: 841-851, 2011)