Hnébeygjan er að dómi flestra sem taka æfingar alvarlega nauðsynleg til þess að byggja upp styrk. Því er haldið fram að þeir sem taki ekki hnébeygju eigi ekki möguleika á að öðlast styrk sem er umfram meðalmennskuna. Þetta vita flestir sem stunda æfingar af alvöru og því má finna hnébeygjuna í flestum æfingaáætlunum. Því miður er allt of algengt að sjá fólk gera kvartbeygjur, eða framkvæma þær á hinn ýmsa máta sem á það sameiginlegt að reyna að gera þessa annars erfiðu æfingu auðveldari. Hnébeygjur eru nauðsynleg æfing, en um leið varasamar ef þær eru gerðar vitlaust.

Það eru nokkur atriði sem þurfa að vera í lagi til þess að hnébeygjan skili tilætluðum árangri. Mikilvægt er að nota ekki meiri þyngdir en svo að hægt sé að framkvæma æfinguna rétt. Hryggurinn á að vera beinn og þegar farið er niður eiga mjaðmirnar að sjá um hreyfinguna að mestu. Hafðu alltaf stjórn á öllum hreyfingum og gættu þess að fara ekki of hratt vegna þess að annars er óþarflega mikil hætta á meiðslum. Fáðu einhvern til að standa við ef þú ætlar að reyna við þyngdir sem þú veist að eru á mörkum þess sem þú ræður við. Það hentar flestum að standa frekar gleitt og hafa stöngina frekar neiðarlega á bakinu til þess að mjaðmirnar séu með meirihluta átaksins.

(Journal Strength and Conditioning Research, 24: 3497-3506, 2010)