Langvarandi streita sem rekja má til fjárhagsvandræða, erfiðleika í samböndum eða yfir höfuð erfiðleikum með að höndla lífið á flestum sviðum veldur því að líkaminn framleiðir aukið magn af hormóni sem heitir glucocorticoids (GC). Hættulega mikið magn af þessu hormóni bælir ónæmiskerfið og kemur sömuleiðis við sögu þegar ofþjálfun er annars vegar meðal íþróttamanna. Hátt gildi glucocorticoids er talið stuðla að offitu með því að valda aukinni sókn í hitaeininga- og fituríka fæðu. Fyrir vikið eykst blóðfita og líkaminn smátt og smátt safnar aukakílóum. Talið er að fitufrumum fjölgi líka (hyperplasia) sem sendir okkur inn í vítahring sem torveldar baráttuna við aukakílóin.

Hormón hafa mikil áhrif á líðan okkar og langvarandi streita er líkleg til þess að auka sækni í orkuríkan mat sem huggun. Það er vel þekkt að fólk borði mikið þegar því líður ílla en engu að síður er ekki hægt að fullyrða að vísindamenn skilji samband umrædds hormóns og offitu.

(Metabolism Clinical Experimental 60: 1500-1510, 2011)