Húðflúr geta dregið úr svitamyndun samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar.

Samkvæmt rannsókninni sem birt var í tímaritinu Medicine & Science in Sports and Exercise geta húðflúr breytt því hvernig húðin bregst við þegar þörf er á að svitna.

Þetta er mjög mikilvægt atriði fyrir margra hluta sakir. Í stuttu máli gegnir sviti því hlutverki að losa líkamann við sölt og stjórna hitastigi líkamans. Við æfingar brennum við hitaeiningum og fitu um leið og við bætum á okkur vöðvamassa. Við æfingar og alla hreyfingu svitnum við til þess að líkaminn ofhitni ekki.

Í rannsókninni voru 10 karlmenn rannsakaðir en meðalaldur þeirra var 21 árs. Allir höfðu þeir húðflúr sem þakti að minnsta kosti 5,2 sentímetra. Vísindamennirnir settu plástra á bæði húðflúraða svæðið og húð án húðflúrs. Í plástrunum var efnið pilocarpine nítrat sem þekkt er að framkalli svita. Það er sama efni og notað er til að greina slímseigjusjúkdóminn (cystic fibrosis). Þegar húðin tók að svitna var svitinn rannsakaður.

Húðflúraða húðin svitnaði mun minna en húð án húðflúrs. Allir sem tóku þátt í rannsókninni mynduðu minni svita í gegnum húðflúraða húð. Saltmagnið í svitanum frá húðflúruðu húðinni var tvöfalt meira en í svita frá húð án húðflúrs.

Aldur húðflúra skipti ekki máli. Allar niðurstöðurnar úr mælingunum á húðflúraðri húð voru samhljóma.

Rannsóknin skoðaði ekki áhrif húðflúra á svita í æfingum og bent var á að ekki væri hægt að útiloka að niðurstöður geti verið breytilegar þar sem svitinn var myndaður með efnum, ekki hreyfingu.

Þessi rannsókn ein og sér þarf ekki endilega að þýða að fólk ætti að forðast húðflúr. Rannsóknin er frekar lítil og leggur engan dóm á hugsanlega hættu sem stafar af húðflúrum. Fjölmargir íþróttamenn fá sér lítil húðflúr og hafa aldrei mein af.

Höfundur rannsóknarinnar lét jafnvel hafa eftir sér í New York Times að „það sé ólíklegt að húðflúr dragi það mikið úr svitamyndun að það stuðli að ofhitnun eða öðrum vandamálum hjá fólki, jafnvel í æfingum.“

(Luetkemeier M, Hanisko J, og.fél. Skin Tattoos Alter Sweat Rate and Na+ Concentration. Medicine & Science in Sports & Exercise 2017; 49(7):1432-1436.)