Boð og bönn
Í ljósi aukinnar umræðu um verulega aukningu á róandi lyfjum og svefnlyfjum er ekki úr vegi að fjalla um nokkur ráð sem hjálpa fólki að svífa á vit draumalandsins án þess að nota til þess lyf. 
– Það eru margt sem mælir gegn því að nota róandi lyf til þess að sofna. Róandi lyf hafa áhrif á taugakerfið á meðan sofið er með því að t.d. að hafa áhrif á draumatímabilin.

Margt fólk segist dreyma illa og sofa laust þegar það hættir að taka róandi lyf sem veldur því að það vaknar þreytt að morgni þrátt fyrir langan nætursvefn. Fyrir vikið heldur það gjarnan áfram að taka lyfin.
– Líkaminn myndar þol gegn róandi lyfjum og eftir nokkurn tíma þarf að auka skammtinn sem tekinn er til þess að verða syfjaður. 
– Fólk getur orðið andlega háð því að taka róandi lyf. Ef menn eru sannfærðir um að þeir geti ekki sofnað nema taka róandi lyf þá getur það eitt haldið þeim vakandi. 

Lyfjalaus ráð:

Áður en þú ferð til læknisins til þess að fá eitthvað hjá honum svo þú eigir auðveldara með að sofna skaltu reyna eftirfarandi ráð:

1. Farðu að sofa á sama tíma á hverjum degi. Ef þú heldur þig við ákveðna stundaskrá þá stillist innri klukkan. Þú skalt líka ávalt gera nokkurn vegin það sama rétt áður en þú ferð að sofa. Þannig skynjarðu mun betur að kominn sé háttatími.

2. Gakktu úr skugga um að allar aðstæður til þess að sofa séu upp á hið besta, þar með talið rúmið. Ef þú sefur í sama rúmi og maki þinn sem hrýtur hátt, rífur af þér sængina og er sífellt á hreyfingu, skaltu sofa í öðru rúmi um stundasakir þar til þú hefur náð að koma reglu á svefnvenjurnar. 

3. Sofðu í þægilegum náttfötum. Því mun betur sem þér líður, því líklegra er að þú sofir vel. 

4. Hafðu algert myrkur inni í herberginu. Ef ljós skín inn um gluggann eða ef þú neyðist til þess að sofa á daginn, skaltu kaupa eitthvað til þess að setja fyrir gluggann eða fá þér þar til gert bindi fyrir augun. 

5. Hafðu hljótt inni í svefnherberginu. Ef þú getur ekki lokað utanaðkomandi hávaða úti með einangrun eða öðrum aðgerðum, skaltu fá þægilegan staðgengil sem skapar þægilegra hljóð inni í svefnherberginu. Það gæti verið t.d. vifta sem suðar jafnt og notalega. 

6. Forðastu að drekka vín eða bjór rétt áður en farið er að sofa. Það hentar ekki öllum. Þegar áhrif vínsins dala um nóttina getur verið að þú vaknir og eigir erfitt með að sofna aftur.

7. Forðastu að verða fyrir hvers konar æsingi um klukkustund áður en þú ferð að sofa. Lestu létta skáldsögu eða horfðu á þægilegt sjónvarpsefni. Ekki vinna við það sem þú tókst með þér heim af skrifstofunni eða ræða fjárhag heimilisins við makann rétt áður en farið er að sofa. 

8. Ekki horfa á sjónvarp í svefnherberginu og forðastu að vinna að einhverjum vinnuverkefnum þar. Nauðsynlegt er að þú lærir að upplifa svefnherbergið sem svefnherbergi. 

9. Ef þú getur ekki sofnað, skaltu fara á fætur og gera eitthvað sem róar þig, eins og að prjóna, lesa eða annað ámóta þar til þig syfjar. Ekki liggja í rúminu og hafa áhyggjur af því að þú getir ekki sofnað. 

10. Ekki leggja þig á daginn. Það getur eyðilagt nætursvefninn.

11. Forðastu alla koffíndrykki eftir kvöldmat. Ekki gleyma því að flestir gosdrykkir, kaffi og te, innihalda koffín. 

12. Hreyfðu þig á hverjum degi. Reglulegar gönguferðir, reiðhjólatúrar, átök í æfingasalnum eða hvað það sem þú hefur gaman af að æfa, getur hjálpað þér að sofa betur. Forðastu hins vegar að æfa mikið þremur tímum áður en þú ferð að sofa.