Réttstöðulyftan er ásamt hnébeygjunni móðir allra æfinga. Ef ætlunin væri að velja eina æfingu sem ætti að taka á alla helstu vöðvahópá í líkamanum er réttstöðulyftan málið. Rússneski kraftlyftingajötuninn Pavel Tsatsouline segir réttstöðulyftuna vera bestu einstöku æfinguna til þess að efla styrk í stóru vöðvahópunum. Réttstöðulyftan virkar á rassinn, neðra og efra bakið, axlir, trappann, lærin og framhandlegg og til þess að halda stöðugleika tekur æfingin einnig á minni vöðva eins og kálfa og maga. Fyrir líkamsræktarfólk er réttstöðulyftan góð æfing til þess að þyngjast og byggja vöðvamassa á skömmum tíma. Hægt er að gera æfinguna á ýmsan hátt enda til af henni nokkrar útfærslur sem taka mismunandi á. Þeir sem taka sig alvarlega notast annað hvort við hefðbundnu aðferðina eða súmó aðferðina. Með súmó aðferðinni er gripið þröngt en fótastaðan gleið, þannig að gripið sé þrengra en fótastaðan. Hefðbundna aðferðin byggist á því að fótastaðan sé svipuð og axlabreiddin og gripið gleiðara. Sumo gripið veldur minna álagi á neðra bakið og þar af leiðandi vilja margir nota þá aðferð, ekki síst ef þörf er á að jafna sig eftir meiðsli.