Í kvöld fór fram vigtun og mæling fyrir keppendur á heimsmeistaramótinu í fitness og módelfitness í Bialystok. Allt gekk vel hjá íslensku keppendunum, þeim Aðalheiði Ýr Ólafsdóttur, Elínu Ósk Kragh Sigurjónsdóttur og Margréti Eddu Gnarr. Að sögn Jóhanns Norðfjörð sem fylgir þeim sem fulltrúi Íslands og alþjóðadómari er beðið með eftirvæntingu eftir forkeppninni.

Haldinn var fundur að venju í tengslum við setningu mótsins þar sem Rafael Santonja forseti IFBB bauð alla velkomna með þeim orðum að nú væru 186 lönd í sambandinu, haldin hefðu verið yfir 1400 meistaramót á árinu víðsvegar um heiminn og gangur IFBB aldrei verið stórkostlegri eins og hann orðar það. Hann sagði ennfremur frá því að hann hefði verið á Ólympíuleikunum í Lundúnum, hitt meðlimi alþjóða Ólympíunefndarinnar sem hefðu tekið fulltrúum IFBB afar vel. Hann er þess fullviss að sportið verði viðurkennt sem Ólympísk íþrótt fyrr en seinna og unnið verði áfram að því að svo megi verða.

Rafael minnti á Arnold Classic Europe sem haldið verður um komandi helgi í Madríd, en þangað stefna 17 íslenskir keppendur. Þetta yrði risastórt mót með rúmlega 700 keppendum, haldið í nýrri og glæsilegri 22 þúsund fermetra höll með sæti fyrir 5 þúsund áhorfendur. Arnold sjálfur myndi mæta á staðinn. Ennfremur minnti hann á heimsmeistaramót unglinga og öldunga í Búdapest ásamt heimsmeistaramótinu í Ekvador. Þetta yrðu allt glæsileg risamót sem aldrei fyrr.

Það fer vel á með íslensku keppendunum eins og sjá má á meðfylgjandi myndum sem fitness.is fékk sendar í kvöld.