Húsfyllir var í Austurbæ í gær á bikarmóti Alþjóðasambands líkamsræktarmanna á Íslandi (IFBB). Keppt var í þremur keppnisgreinum, fitness, módelfitness og vaxtarrækt. Í fitnesskeppni kvenna var keppt í tveimur hæðarflokkum, yfir og undir 164 sm og sigruðu þær Anna Bella Markúsdóttir og Freyja Sigurðardóttir sína flokka og háðu síðan keppni sín á milli um bikarmeistaratitil alþjóðsambandsins í fitness. Eftir tvísýna keppni sigraði Freyja Sigurðardóttir. Jakob Már Jónharðsson varð bikarmeistari í fitness karla, Inga Þóra Ingadóttir varð bikarmeistari í módelfitness og hinn gamalkunni Sigurður Gestsson varð bikarmeistari í vaxtarrækt.Mikil spenna ríkti fyrir mótið þar sem ljóst var að þarna mættust margir af bestu keppendum landsins í fitness og vaxtarrækt. Í fitnesskeppni kvenna var spennan í hámarki þegar þær Anna Bella Markúsdóttir og Freyja Sigurðardóttir sem báðar höfðu sigrað sína flokka mættu á svið til þess að keppa um bikarmeistaratitilinn. Báðar hafa þær áður keppt með góðum árangri á heimsmeistaramótum Alþjóðasambands líkamsræktarmanna og var því engan vegin ljóst fyrirfram hvernig færi. Freyja sem þarna kom í sínu besta formi fram til þessa var sigurvegari dagsins. Hún var vel skorin og hafði augljóslega bætt samræmið frá því hún síðast keppti. Freyja sem í dag býr í Noregi hefur því gert góða ferð heim til Íslands. Alls kepptu 12 keppendur í fitnesskeppni kvenna og var keppnin á milli þeirra þegar á heildina er litið mjög jöfn og spennandi. Flestir keppendurnir höfðu keppt áður og voru að mæta í sínu besta formi.
Í vaxtarræktarkeppninni mætti Hrönn Sigurðardóttir ein fyrir hönd kvenna í þetta skiptið og óhætt er að fullyrða að hún stal senunni. Hrönn sem er búin að æfa mjög ötullega undanfarið ár bjó vel að þeirri reynslu að hafa árum saman verið stoð og stytta systur sinnar Heiðrúnar við að semja danslotur og æfa sviðsframkomu. Frjálsa stöðulotan hjá Hrönn sýndi þannig það besta sem vaxtarrækt býr yfir og áhorfendur kunnu greinilega það vel að meta enda ætlaði þakið af húsinu í fagnaðarlátunum. Að öðrum keppendum ólöstuðum er óhætt að fullyrða að þegar frjálsa stöðulotan er annars vegar geta margir mikið af Hrönn lært.
Í vaxtarrækt karla mættu fjórir keppendur. Í fyrstu var tvísýnt og spennandi að sjá fyrir hvernig úrslit færu. Sæmundur Hildimundarson, Svavar Már Einarsson og Sigurður Gestsson voru þar nokkuð jafnir við fyrstu sýn. Sæmundur býr yfir góðu samræmi en eins og oft áður í keppni vantaði hann upp á ná betri og harðari skurðum til þess að samræmið og vöðvamassinn næði að njóta sín. Svavar sem er á köflum vöðvameiri en bæði þeir Sæmundur og Sigurður var eins og Sæmundur ekki fyllilega skorinn. Með meiri skurðum er einnig ljóst að hann myndi þar með bæta það sem á vantar í samræmi. Þegar upp var staðið var það Sigurður Gestsson sem stóð uppi sem sigurvegari. Sigurður sem er búinn að keppa oft á alþjóðlegum mótum undanfarin tvö ár bjó vel að því að vera skornari en aðrir keppendur. Helst var að hann skorti á fylltara bak heldur en þeir Sæmundur og Svavar. Fór svo að af sjö dómurum voru allir nema einn með Sigurð í fyrsta sæti. Erlendis eru keppendur umsvifalaust færðir niður um sæti ef umtalsvert skortir á skurði hjá þeim. Ætla má því að þessir dómar hafi verið í samræmi við það að þegar svipaðir keppendur eru bornir saman þá hefur sá betur sem sýnir betri skurði. Fyrirfram voru úrslitin í vaxtarrækt karla þó engan vegin augljós enda keppendur þar mjög jafnir.
Í módelfitness sigraði Inga Þóra Ingadóttir. Í þessari keppnisgrein eru aðrar forsendur fyrir dómum heldur en í hefðbundinni fitnesskeppni. Í módelfitness horfa dómarar fyrst til fegurðar, fyrirsætueiginleika og framkomu keppenda og þess að keppendur búi yfir mjög hóflegum íþróttamannslegum vexti. Á bikarmótinu var ljóst að Inga Þóra var sú sem dómarar voru að leita að. Talsvert var þó jafnt á með keppendum allt frá fyrsta til síðasta sætis.
Um næstu helgi fer fram heimsmeistaramót Alþjóðasambands líkamsræktarmanna á Sikiley á Ítalíu. Þangað munu fara þau Kristín Kristjánsdóttir og Sigurður Gestsson ásamt fylgarliði. Kristín kemur til með að keppa þar í flokki 35 ára og eldri og Sigurður í flokki 40 ára og eldri. Fróðlegt verður að fylgjast með því hvernig þeim kemur til með að ganga á heimsmeistaramótinu. Ætla má að á fimmta tug þjóða sendi þangað keppendur og að þeir verði vel á þriðja hundrað talsins, enda er fitnesskeppni kvenna að verða með fjölmennustu keppnisgreinum í heiminum í dag.
Efstur meðal jafningja í keppninni um bikarmeistaratitilinn í fitnesskeppni karla varð Jakob Már Jónharðsson. Keppnin í þessum flokki var mjög jöfn en þó var nokkuð ljóst að Jakob hafði forskot á aðra keppendur. Í fitness karla eru þyngdartakmarkanir samkvæmt reglum. Mega keppendur þar því ekki vera nema ákveðið þungir miðað við hæð.
Úrslit Bikarmóts Alþjóðasambands líkamsræktarmanna Þrjú efstu sætin Módelfitness 1 Inga Þóra Ingadóttir 2 Vala Hauksdóttir 3 Guðrún Björg Ellertsdóttir Fitness karla 1 Jakob Már Jónharðsson 2 Sigurkarl Aðalsteinsson 3 Þór Þormar Pálsson Fitness kvenna undir 164 sm 1 Anna Bella Markúsdóttir 2 Guðrún Hólmfríður Ólafsdóttir 3 Elín Ösp Sigurðardóttir Fitness kvenna yfir164 sm 1 Freyja Sigurðardóttir 2 Hrönn Sigurðardóttir 3 Kristín Kristjánsdóttir Vaxtarrækt kvenna 1. Hrönn Sigurðardóttir Vaxtarrækt karla 1 Sigurður Gestsson 2 Svavar Már Einarsson 3 Sæmundur Hildimundarson