Smith-vélin er mjög góð til þess að aðstoða við að halda góðu formi á lyftum og ýta undir það að menn taki vel á án þess að eiga á hættu að slasast. Í Smith-vélinni er ólympíustöng sem fest er á rekka sem oftast er með kúlulegum. Krókar eru á stönginni til þess að hægt sé að stöðva lyftuna ef gefist er upp. Vélin hentar sérlega vel fyrir bekkpressu, hnébeygjur, trappatog og upptog. Ef menn hafa átt við bakmeiðsli að stríða er hægt að standa svolítið framarlega í hnébeygjunni og þá minnkar álagið á bakið. Vélin hentar sérlega vel til þess að leggja sérstaka áherslu á ákveðna punkta í lyftum og þá t.d. veika punkta. Hægt er að einskorða lyftuna við mjög takmarkaða hreyfingu ef þess er óskað.