Stundum er sagt í gríni að maður geti sofið þegar maður verður gamall. Æskan þoli það vel að vaka lengi og sleppa jafnvel að sofa næturlangt. Sömu lögmál gilda þó um unga sem aldna hvað áhrif svefnleysis á blóðsykur varðar. Svefnleysi raskar nefnilega insúlínjafnvægi líkamans samkvæmt hollenskri rannsókn. Esther Donga við Leiden læknaháskólann í Hollandi komst að því að svefnleysi í eina nótt jók insúlínviðnám líkamans verulega. Nú spyr sig einhver hvað insúlínviðnám er. Brisið framleiðir insúlín eftir þörfum í takt við það hversu mikið af kolvetnum (sykri) við borðum. Þegar insúlínviðnám líkamans eykst þarf líkaminn meira magn insúlíns til þess að brjóta niður kolvetnin eftir góða máltíð. Insúlínviðnámeið jókst um19-25% eftir fjögurra klukkustunda svefn samanborið við átta klukkustunda svefn.
Insúlínviðnám hefur aukist um 450% samkvæmt öðrum rannsóknum þegar um langvarandi svefnleysi er að ræða. Minna en sex tímar flokkaðist sem svefnleysi í þeim rannsóknum. Erfðir, heilbrigði efnaskipta og slæmar svefnvenjur ráða miklu um það hvernig insúlínefnaskiptum og blóðstreymi í líkamanum er háttað. Slæmar svefnvenjur geta sömuleiðis haft neikvæð áhrif á ferskleika og kyngetu.
(Journal Clinical Endocrinology Metabolism, prentútgáfa, 6. apríl 2010)