laxmaturÞað er mikið af omega-3 fitusýrum í fiskolíum. Með því að borða meira af feitum fiski eykst hlutfall omega-3 fitusýra í mataræðinu gagnvart omega-6 sem eru ekki jafn æskilegar að því að talið er. Samkvæmt nýrri rannsókn sem var gerð við Tufts háskólann kom í ljós að omega-3 fitusýrur koma í veg fyrir að telómerar í frumum styttist sem á einföldu máli þýðir að frumurnar lifa lengur fyrir vikið. DNA keðjur eru með telómerum á endunum sem halda keðjunum saman. Við frumuskiptingu minnka telómerarnir sem gerir það að verkum að þeir styttast smátt og smátt. Þegar upp er staðið dregur úr skilvirkni ónæmiskerfisins sem bregst að lokum og sjúkdómar og að lokum dauðinn taka við. Janice Kiecolt-Glaser við Ríkisháskólann í Ohio og félagar rannsökuðu of þunga miðaldra karla og aldrað fólk og komust að því að með því að gefa omega-3 fitusýrur lagaðist hlutfallið á milli omega-3 og omega-6 fitusýrana án þess að lengd telómerana styttist. Fyrri rannsóknir hafa stutt það að langvarandi omega-3 gjöf varðveiti betur lengdina á telómerunum þannig að draga má þá ályktun að bætiefni sem innihalda omega-3 fitusýrur stuðli að frumuheilbrigði og langlífi þeirra.
(Brain Behaviour Immunity, 28: 16-24, 2014)