Í dag lauk vel heppnuðu Þrekmeistaramóti í Íþróttahöllinni á Akureyri þar sem 105 keppendur voru mættir til leiks. Þrjú Íslandsmet voru slegin að þessu sinni en það voru liðin 5 fræknar sem kepptu í opnum flokki kvenna sem bættu sitt met um þrjár sekúndur og karlaliðið Nöldur og nagg sem keppti í flokki 39 ára og eldri sem bætti Íslandsmetið um rúma sekúndu. Liðið Dirty Nine bætti einnig Íslandsmetið í flokki 39 ára og eldri.

Öll liðin voru að bæta eigin Íslandsmet. Fimm fræknar fóru á tímanum 13:28:49 og Nöldur og Nagg á 13:39:01 og Dirty Nine á 14:40:27.

Á síðasta Þrekmeistaramóti féll ekkert Íslandsmet sem var í fyrsta og eina skiptið sem það hefur gerst. Þessi bæting á Íslandsmetunum að þessu sinni sýnir að hægt er að bæta metin ef allt gengur upp.

Kristjana Hildur Gunnarsdóttir og Aðalsteinn Sigurkarlsson sigruðu einstaklingsflokkana, bæði örlítið frá því að bæta eigin Íslandsmet.  Kristjana fór á tímanum 15:59:29 og Aðalsteinn á 15:39:68. Keppnin var geysilega hörð í einstaklingsflokkunum enda margir meistarar saman komnir og sumir að sýna miklar bætingar.

Kristjana Hildur sigraði bæði opinn flokk kvenna og flokk 39 ára og eldri. Í opna flokknum varð Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir önnur á eftir henni á tímanum 17:57:00. Í flokki 39 ára og eldri varð þrekmeistarareynsluboltinn Þuríður Þorkelsdóttir önnur á eftir Kristjönu á tímanum 19:30:32 en hún varð sömuleiðis þriðja í opnum flokki. Þriðja í flokki 39 ára og eldri varð Árdís Lára Gísladóttir á tímanum 22:47:20.
Í tvenndarkeppninni þar sem karl og kona keppa saman með því að taka æfingarnar til skiptis sigraði liðið Lífsstíll – Best í heimi á tímanum 13:47:17. Það voru þau Vikar Sigurjónsson og Kristjana Hildur Gunnarsdóttir sem eins og nafn tvíeykisins gefur til kynna kemur frá æfingastöðinni Lífsstíl í Reykjanesbæ. Fast á hæla þeirra kom Team Geir og Aníta frá Laugasporti í Hveragerði á tímanum 14:41:08 sem sömuleiðis er frábær tími. The Swingers sem einnig eru frá Laugasporti höfnuðu í þriðja sæti á tímanum 15:10:84.
Eitt lið keppti í liðakeppni kvenna eldri en 39 ára. Það voru Íslandsmetshafarnir Dirty Nine sem sömuleiðis eru frá Lífsstíl í Reykjanesbæ. Þær bættu eigið Íslandsmet um 11 sekúndum þegar þær fóru á tímanum 14:40:27. Þær höfnuðu í öðru sæti í opnum flokki á eftir 5 fræknum sem eins og áður sagði bættu líka eigið Íslandsmet. Liðið Bleiku pardusarnir náðu þriðja sæti á tímanum 15:05:89.

Í opinni liðakeppni karla og flokki 39 ára og eldri sigruðu öldungarnir í Nöldri og naggi með bætingu á eigin Íslandsmeti eins og áður sagði. VN-liðið sem keppir í opnum flokki kom fast á hæla þeirra á tímanum 13:51:45. Þeir þurftu að ræsa tvisvar þegar hamagangurinn varð til þess að liðsmaður þeirra endaði á gólfinu í róðravélinni og rafhlöðurnar úr henni þeyttust inn í sal. Öldungaráðið frá Bjargi á Akureyri varð í þriðja sæti á tímanum 14:10:72.  Liðið Basement Seniors frá World Class varð þriðja í flokki 39 ára og eldri á tímanum 15:29:93.  Kollegar þeirra í Basement Juniors sem eins og nafnið gefur til kynna er yngri og minna lífsreynd útgáfa af liðsmönnum frá sömu æfingastöð var sex sekúndum frá því að komast á pall í opnum flokki.  Öldungarnir sáu þó til þess að verðlaun skiluðu sér í hús.

 kv.

Einar Guðmann

Í karlaflokki varð Vikar Sigurjónsson annar á eftir Aðalsteini á tímanum 15:50:08. Hann keppir sömuleiðis í flokki 39 ára og eldri og sigraði þann flokk með þessum frábæra tíma. Finnur Dagsson stóð í miklum bætingum, en fyrir keppnina var hans besti tími 18:18:00 en hann bætti hann hraustlega þegar hann fór á tímanum 15:54:05. Þessi tími dugði honum vel í þriðja sætið í opnum flokki og þriðja sætið í flokki 39 ára og eldri.  Reynsluboltinn Þorsteinn Hjaltason varð síðan þriðji í flokki 39 ára og eldri á tímanum 16:55:94.