Ana Markovic keppir á mörgum fitnessmótum á næstunni og gefur góð ráð

Hún er síbrosandi og einstaklega jákvæð. Hvarvetna sem hún fer vekur hún athygli fyrir jákvæðni og vinsamlegt viðmót. Hún stefnir á svið á ýmsum erlendum mótum á næstu vikum og um síðustu helgi tók hún þátt í Heimsmeistaramóti IFBB í fitness. Hún var ekki í úrslitum í 24 manna flokki á heimsmeistaramótinu. Á vissan hátt upplifði hún engu að síður þátttökuna sem mikinn sigur.

Hver er Ana Markovic?

Ég er frá Serbíu en bý á Íslandi og er að keppa á fitnessmótum IFBB. Ég hef gaman af að lesa, ferðast og lyfta lóðum og reyni að sameina þessi áhugamál eins og hægt er. Þannig fer ég á bókaráðstefnur á hverju ári og reyni að taka þátt í keppnum til að  nýta ferðina. Þetta er líka góð leið til að fara í frí frá vinnu og gera þannig allt sem ég elska að gera um leið og ég sinni vinnunni.

Ég starfa í heimildadeild Marels þar sem ég starfa með frábæru fólki við að búa til handbækur en ég er einnig endalaust á ýmsum námskeiðum eða í skóla. Nú síðast var ég að fá þriðju gráðuna mína – í þetta skipti sem einkaþjálfari frá Keili. Ég stefni á að halda áfram að mennta mig og styðja við það sem ég er að gera með því að auka við þekkingu á ýmsum sviðum.

Ana Markovic á Heimsmeistaramótinu í Póllandi 28. okt 2018

Hvernig reynsla var það að fara á Heimsmeistaramót IFBB í fitness?

Heimsmeistaramótið var risastór keppni. Sem áhugamannakeppandi voru tilfinningarnar yfirgnæfandi vegna þess að þetta var stærsta svið sem ég hef stigið á. Til að toppa það þá var flokkurinn minn þar að auki fjölmennasti flokkurinn á mótinu, og vá! 24. keppendur í flokknum. Sumir keppendurnir voru flottustu keppendur sem ég hef hitt.

Það var magnað að sjá einbeitinguna og fórnfýsina hjá keppendum og skipuleggjendum keppninnar. Þetta var keppni sem var á hærra plani en ég hef upplifað áður. Ég er heppin að hafa fengið tækifæri til að fá þessa reynslu.

Íþróttamenn sem grípa ekki tækifærið til að keppa á stærstu mótum heimsins eru að missa af meiru en ég get komið í orð hérna. Ég náði ekki sæti á mótinu en mér líður eins og ég hafi sigrað eitthvað annað og mun mikilvægara. Ég fékk að kynnast því hvernig það er að taka þátt í keppni á svona háu stigi og ég er tilbúin og æst í að gera það aftur!

Náðirðu að komast í það form sem þú vildir?

Að sjálfsögðu ekki. Ég fer bráðum að halda að ég eigi eftir að eltast við óskaformið að eilífu. Ég mun alltaf vilja bæta sviðsframkomuna og það hvernig ég kem mér í form. Það tekur tíma að ná markmiðunum en ég er þolinmóð.

Ana Markovic

Hvernig var undirbúningurinn fyrir mótið skipulagður?

Ég er með einkaþjálfara sem ég er oft í sambandi við varðandi allt sem varðar undirbúninginn. Við gerum litlar breytingar í einu, fínstillum allt ef svo má segja til að taka tillit til bæði andlegu- og líkamlegu hliðarinnar og allra kringumstæðna.

Hver og einn undirbúningur er lærdómsríkt ferli um það hvernig líkaminn bregst við.

Einkaþjálfarinn sendir mér upplýsingar um mataræðið og æfingakerfið og ég sé um mitt. Hann gerir það einstaklega auðvelt fyrir mig að einbeita mér að andlegu hliðinni – halda fókus, fagmennsku og vera í andlegu jafnvægi en á sama tíma njóta reynslunnar og hafa gaman af.

Hvernig er mataræðið síðasta mánuðinn fyrir mót og hvernig er það utan undirbúnings?

Það er ekkert sem heitir „utan undirbúnings“ hjá mér. Ég tek tíma í að skera niður en ég er meira eða minna á svipuðu mataræði allt árið – ég borða lítið unnin mat. Munurinn er helst sá að ég vigta máltíðirnar þegar ég fer að skera niður og takmarka magn fæðunnar. Þegar ég er ekki að skera niður leyfi ég mér að sjálfsögðu að fá hamborgara eða pizzu en ég hef tekið eftir því að ég hef losnað við löngun í skyndbitamat síðan ég fór að stunda fitnessíþróttina – ég er þó ekki búin að glata lönguninni í ís og kleinuhringi.

Hvernig er keppnisundirbúningi háttað á næstunni?

Ég er reyndar að skrifa þetta þar sem ég er stödd í Póllandi og er á leiðinni á flugvöllinn þar sem ég er að fara til Rómar að keppa á Diamond Cup mótinu á sunnudag. Helgina þar á eftir mun ég fara til Þýskalands til að taka þátt í Rhein-Neckar-Cup mótinu. Eftir það stefni ég að fara heim og taka þátt í Bikarmótinu í Háskólabíói. Planið er að fljúga síðan til Rúmeníu vegna þess að þar fer fram World Cup mótið í Transylvaníu sem haldið er helgina eftir Bikarmótið. Síðan er ætlunin að ljúka keppnistímabilinu með því að taka þátt í Diamond Cup mótinu Úkraínu viku síðar.

Hvernig ferðu að því að keppa á svona mörgum mótum á stuttum tíma?

Ég held mig við eitt mót á viku. Það þarf að gera ráð fyrir tíma sem fer í skráningu, finna keppnisstaðinn, gististað, hvar og hvað á að borða, akstri til og frá keppnisstað og brúnkumeðferð svo eitthvað sé nefnt. Það væri eflaust hægt að keppa á tveimur mótum sömu helgina en ég vill forðast óþarfa streitu. Ég vill einbeita mér vel að hverju móti. Ég á það inni hjá mér og þjálfaranum að gera mitt besta eftir að hafa lagt mig alla fram við að komast í þau spor sem ég er í í dag.

Ég er líka einstaklega vel skipulögð.

Ég hef samband við mótshaldara, hótel og keppnissambandið hér heima með góðum fyrirvara fyrir keppnistímabilið.

Með margra mánaða fyrirvara hef ég líka samband við vinnuveitandann til þess að geta verið þetta lengi fjarverandi og í samráði sjáum við til þess að verkefnin mín í vinnunni séu í góðum farvegi á meðan ég er í burtu.

Ég sinni bæði vinnunni og lífinu þannig að gert er ráð fyrir kostnaðinum sem þessu fylgir. Fjárhagslega er ég búin að undirbúa mig löngu áður en keppnisferðirnar byrja.

Ana Markovic
Ljósmynd: Mummi Lú.

Geturðu gefið verðandi keppendum einhver ráð?

Keppni hefur þann mátt að gera þig blíðari, sterkari, betri, hamingjusamari og heilbrigðari ef þú gerir hlutina rétt. Það að standa uppi sem sigurvegari er eðli allra keppna en það að fá gott sæti er ekki það eina sem þú getur sigrað í svona keppni. Eftir keppnina er hægt að fá endurgjöf um það hvað má gera betur hjá þeim sem eru traustsins verðir, heiðarlegir og viljugir til þess. Þannig færð þú og þjálfarinn ákveðin markmið til að vinna að.

Ef þú getur ekki fundið til hamingju óháð því hvaða sæti þú fékkst með því að líta á sætið sem tækifæri til framfara – þá er þetta kannski ekki að henta þér.

Það er allt annað en auðvelt að fara með líkamann í gegnum undirbúninginn og hugur verður að fylgja. Oft virðast þetta vera eintóm hlaup upp brekku og því þarftu að hafa þjálfara sem styður við þig. Það þarf að vera á hreinu að þjálfarinn hafi reynslu af því að koma skrokkum í form fyrir mót! Það er eitt að koma fólki í form og allt annað að koma fólki í form fyrir svið!

Ég er sjálf einkaþjálfari en ég hef enga reynslu af að ganga svona langt með líkama annarra og ég hef engan rétt til að taka áhættu með heilbrigði annarra. Þetta snýst ekki bara um að „æfa“ og „borða hreint“. Það eru vísindi á bak við það sem þjálfarinn minn er að gera og ég er þakklát og heppin að hann skuli eyða miklum tíma í að reikna út og taka tillit til alls þess sem gerir líkama minn að því sem hann er.

Ekki taka fólki sem sjálfgefnu. Ef þú heldur að þú sért að gera þetta á eigin vegum ertu á villigötum.

Einhver hjálpaði þér með keppnisfatnaðinn, einhver hjálpaði með keppnislitinn, förðun, hárið, sviðsframkomuna og einhver hefur þurft að hlusta á linnulausar ræður og einhver sér um að skipuleggja mótið. Það koma margir að svona undirbúningi og það er mikilvægt að vera þakklát þegar þú ert með gott fólk í kringum þig. Ég veit að ég er heppin.

Sýndu fólki vinsemd sem þú hittir. Þau eru ófá skiptin sem einhver hefur bjargað mér vegna þess að einhvern tímann áður hef ég sýnt viðkomandi vinsemd og virðingu. Hugsaðu þetta: – allir eru mannlegir og það er mannlegt að gera mistök. Þakkaðu fyrir þig þegar þú meinar það. Brostu. Það kostar ekkert að brosa og það gæti fengið þann sem er ef til vill búinn að þurfa að eiga við marga þreytta íþróttamenn þann daginn til að finna fyrir smá þakklæti.

Þegar þú keppir erlendis þarftu að hafa í huga að þú ert að keppa fyrir hönd landsins, jafnvel á smæstu mótum.

Með góðri framkomu ertu að gera öðrum Íslenskum keppendum auðveldara fyrir sem koma á eftir þér.

Spjallaðu við fólk á keppnisstað. Kynntu þig. Búðu til sambönd og nýjar minningar. Njóttu augnabliksins og hafðu gaman af. Erfiða tímabilið er búið.

Keppnisdagurinn er dagurinn sem þú átt að fagna framförum! Þér tóks það! Nú á að vera gaman! Ekki hafa áhyggjur af smámunum og taktu helling af myndum!

Vertu í góðu sambandi við forsvarsmenn keppnissambandsins heima. Þeir geta opnað dyr sem gefa meiri reynslu en einhver smámót geta gert.

Ertu örugg með þig? Bíddu þangað til þú lendir í samanburði við þá bestu í sportinu! Þú nærð ekki meiri árangri nema þú setjir þér hærri markmið. Taktu þátt í mótum og uplifðu léleg sæti, verða næstum of sein á svið, fá ekki brúnkutíma, geta bara fengið óhollan mat, engin fæðubótarefni, óþægileg hótelrúm, tungumálavesen og lærðu að takast á við allar aðstæður um leið og þú heldur haus og heldur áfram með undirbúninginn. Sambandið heima getur hjálpað þér eða jafnvel vísað á fólk sem getur hjálpað á ögurstundu. Vertu því í góðum tengslum við Sambandið heima! Við erum ein fjölskylda!

Við erum IFBB!