12788379_1108983769168877_1223137385_oMargrét Gnarr keppir á morgun, laugardag í atvinnumannaflokki á Arnold Classic mótinu í Ohio í Bandaríkjunum. Í spjalli við FF langaði okkur að vita hvernig það legðist í hana að stíga á svið á morgun og mæta mörgum af sterkustu keppendum heimsins. Hún er í för með systur sinni Kamillu Maríu Gnarr. Að sögn Margrétar er Kamilla í hálfgerðu menningarsjokki enda þó hún hafi séð Margréti keppa heima á Íslandi er þetta í fyrsta skipti sem hún upplifir alþjóðlegt mót. Þær hafa skemmt sér vel frá því þær komu en í gær var hún ásamt öðrum atvinnumönnum að hitta aðdáendur og veita eiginhandaráritanir á kynningu sem haldin var á keppnisstaðnum.

Kamilla og Margrét
Kamilla og Margrét

Er stór munur að keppa sem atvinnumaður miðað við að vera áhugamaður?

Aðal munurinn er tíminn sem við fáum á sviðinu. Við fáum miklu meiri tíma en áhugamenn og pósurnar eru aðeins öðruvísi en þegar ég var að keppa sem áhugamaður. Það eru sennilega helst pósurnar og tíminn á sviðinu sem eru öðruvísi. Annars er ekki mikill munur finnst mér. Það eru færri að keppa í atvinnumannaflokkunum þannig að það eru færri baksviðs en annars finnst mér þetta mjög svipað.

Hverja telur þú vera sterkustu keppendurna sem þú mætir á mótinu?

Við erum 13 í flokknum og sterkustu keppendurnir eru sennilega Janet Layuk sem varð í öðru sæti á Olympía, Courtney King sem varð í þriðja sæti á Olympía og Narmin Assria og Stephanie Mahoe sem voru líka í top 5 á Olympía og þær voru líka í efstu sætunum á Arnolds árið á undan. Ashley Kaltwasser sem er búin að sigra þetta mót tvö ár í röð er ekki að keppa og en hún er líka búin að sigra Olympia þrjú ár í röð. Þetta eru sterkustu keppendur í heiminum í dag sem gerir þetta mjög spennandi.

12773147_1108983985835522_1132191497_oErtu í því formi sem þú vonaðist eftir fyrir mótið?

Já, algerlega, ég er mjög ánægð með formið og er mjög bjartsýn. Ég tók mér árs pásu frá þjálfun hjá Jóhanni Norðfjörð en byrjaði aftur hjá honum fyrir síðasta mót og þetta er búið að vera mjög þægilegur niðurskurður. Þetta er mjög svipaður niðurskurður og ég var í fyrir heimsmeistaramótið 2013 þegar ég varð heimsmeistari áhugamanna.

Einhverjar væntingar um sæti?

Nei, ég reyni ekki að spá í því. Ég ætla aðallega að reyna að bæta mig frá síðasta móti og það sem mig langar helst að bæta núna er að lengja framkomuna í kynningarlotunni, gefa mér aðeins betri tíma – en allt annað er bara plús.

Fleiri íslendingar eru að keppa á Arnolds og hafa nú þegar sumir komist í gegnum forkeppnina en úrslit liggja fyrir á morgun. Við munum birta úrslit hér á fitness.is þegar þau liggja fyrir.