Þrætan um gildi fárra eða margra endurtekninga fyrir vöðvauppbyggingu hefur verið hráefni ófárra deilna.

Þjálfarar og líkamsræktarfólk hefur rifist um þetta atriði svo áratugum skiptir. Flestir hallast að því að vöðvar stækki vegna viðvarandi álags til lengri tíma. Vöðvarnir bregðist við með því að stækka til þess að þola álagið.

Hægt er að mæla nýmyndun prótína í vöðvum við ákveðið álag. Það er einmitt það sem Nicholas Burd og félagar við McMaster Háskólann í Bandaríkjunum gerðu. Þeir komust að þeirri niðurstöðu að léttar þyngdir og margar endurtekningar í æfingum stuðluðu að meiri nýmyndun prótína í vöðvum heldur en fáar endurtekningar og meiri þyngdir.

Þeir sem tóku þátt í rannsókninni voru látnir taka fótaréttur í bekk eins oft og þeir gátu með 90% af hámarksþyngd annars vegar og 30% hámarksþyngdar hinsvegar. Notaðar voru flóknar aðferðir við að mæla nýmyndun prótína þegar vöðvarnir voru að jafna sig. Mesta nýmyndunin átti sér stað þegar teknar voru léttar þyngdir og margar endurtekningar. Þessar niðurstöður skipta líkamsræktarfólk og þá ekki síst vaxtarræktarmenn miklu máli en eitt er víst – nauðsynlegt er að gera fleiri rannsóknir til þess að staðfesta þessar niðurstöður. Vissulega eru til nokkuð margir vaxtarræktarkeppendur á heimsmælikvarða sem æfa yfirleitt með léttar þyngdir og taka margar endurtekningar. Þeir eru hinsvegar fleiri sem æfa að jafnaði með meiri þyngdir og taka ekki fleiri en 12-15 endurtekningar.

(PLoS One vefútgáfa, 9. ágúst 2010)