Það varla til sú æfingaáætlun sem felur ekki í sér hinar ýmsu magaæfingar sem byggjast á að lyfta eigin líkamsþyngd með einum eða öðrum hætti án lóða. Uppsetur, liggjandi og lóðréttar fótalyftur og hinar ýmsu gólfæfingar sem ætlað er að taka á magavöðvana svo eitthvað sé nefnt.

Jennifer Pintar og félagar við Youngstown ríkisháskólann í Ohio í Bandaríkjunum gerðu nokkuð merkilega rannsókn á áhrifum hefðbundinna magaæfinga á styrk magavöðva.

Þeir sem tóku þátt í rannsókninni tóku magaæfingar án lóða sem fólu í sér þrjár lotur og tuttugu endurtekningar, hálfrar mínútu hvíld á milli lota. Hóparnir sem gerðu æfingarnar á ellefu vikna tímabili gerðu þær sex eða þrisvar sinnum í viku og viðmiðunarhópur gerði þær aldrei. Skemmst frá að segja var ekki um mælanlega styrktaraukningu að ræða hjá neinum. Styrkurinn var mældur í KinCom vél sem er vandað mælitæki fyrir styrk. Niðurstöðurnar þykja merkilegar og valda mönnum vissulega hugarangri vegna þess að vandamálið við magaæfingar er að varasamt er að nota miklar þyngdir án þess að skaða hrygginn. Það er kúnst að æfa magavöðvana án hættu fyrir hrygginn ef lóð eru notuð. Af niðurstöðum þessara rannsóknar má ráða að sama gildi fyrir magavöðva og aðra vöðva. Þeir þurfa meira álag en þeir eru vanir til þess að bæta sig í styrk. Það ætti í sjálfu sér ekki að koma neinum á óvart.

(Journal Strength Conditioning Research, 23: 2083-2089, 2009)