Ertu einn af þeim sem vafrar á milli æfingatækja án raunverulegra átaka? Það er algeng sjón í æfingastöðvum að sjá fólk framkvæma 10-12 endurtekningar í æfingum, leggja frá sér lóðin og það blæs varla úr nös. Eftir að hafa æft í talsverðan tíma falla alltof margir í þá gildru að þyngja ekki lóðin eftir því sem árangur næst. Þannig býður það stöðnun heim. Ef til vill er þetta leti, framtaksleysi, viljaleysi, ótti við sársauka eða eitthvað annað, en lykilatriði líkamsræktar til árangurs er að taka á. Það er í raun hægt að æfa í mörg ár í líkamsrækt án þess að ná ásættanlegum árangri ef menn koma sér ekki upp úr þessari gryfju. Reglan á að vera sú að þyngja um leið og þyngdin verður auðveld. Hægt er að gefa óteljandi ráð um líkamsrækt en ekkert kemst ofar á listann en að taka vel á þegar æfingar eru annars vegar.