Í öllum æfingastöðvum nota menn svokölluð lyftingabelti.   Sumir nota þau, aðrir ekki.  Þeir sem nota þau og hafa lagt það í vana sinn virðast ekki geta verið án þeirra.  Raunin er sú að fátt bendir til þess að beltin hafi eitthvað að segja.  Sérfræðingar í þessum málum segja að í sumum tilfellum hjálpi beltin afar lítið og geti jafnvel orðið til hins verra í sumum æfingum.  Beltið tekur álagið af vöðvunum sem annars myndu styrkjast, sérstaklega í neðra bakinu, en það svæði þarf að styrkja vel til þess að ná heildarstyrkleika.

Fræðilega séð er það sem gerist þegar þú spennir belti um miðjuna á þér að þrýstingur eykst verulega inni í kviðarholinu.  Áhrifin sem það hefur á hrygginn eru þau að beltið virkar eins og spelka þannig að þú getur lyft meiri þyngdum.  Í stað þess að rembast við að ná meiri og meiri þyngdum ættu menn hinsvegar að hugsa frekar um að styrkja neðrabakið.  Auðvitað eru sumir lyftingamenn og kraftlyftingamenn einmitt að leita að þessum áhrifum sem beltin hafa – að geta lyft meiru, en fyrir þá sem eru fyrst og fremst að hugsa um að styrkja sig, þá ættu þeir að sleppa beltinu í flestum tilfellum.  Það er hinsvegar í nokkrum æfingum sem getur verið til gagns að nota belti. Það er í flestum pressum fyrir ofan höfuð.  Þegar menn pressa einhverja þyngd upp fyrir höfuð getur verið gott að hafa belti, vegna þess að beltið varnar því að menn fetti sig of mikið.  Það er mjög varasamt að fetta sig of mikið í slíkum æfingum en það getur gerst óvart ef menn eru orðnir of þreyttir og einbeitingin af skornum skammti.

Að þessari undantekningu frátalinni, þá er ekki þjóðráð að nota belti.  Fyrir utan skýringuna sem áður er nefnd í sambandi við styrkingu baksins, þá ber að nefna að rannsókn sem gerð var á mönnum sem notuðu belti í bekkpressu, réttstöðulyftu og á þrekhjóli, þá hækkaði blóðþrýstingurinn í þeim umtalsvert á meðan æfingunum stóð.