Í leit að sökudólgum offitufaraldursins er oftar en ekki horft til vinnslu fæðunnar. Næringarfræðingar telja sumir að þar kunni ákveðin sekt að liggja þar sem mikið unnar fæðutegundir eru í mörgum tilfellum hitaeiningaríkari og innihalda minna af trefjum en minna unnar fæðutegundir. Sadie Barr og Jonathan Wright við Pomona Háskólann í Claremont í Kaliforníu komust að því nýlega að líkaminn þarf ekki að nota jafn margar hitaeiningar við að melta mikið unnar fæðutegundir samanborið við heilnæmar fæðutegundir sem eru óunnar og trefjaríkar. Mæld voru efnaskipti í sex klukkustundir eftir hverja máltíð og kom þá í ljós að líkaminn notaði einungis 73 hitaeiningar til þess að melta unna fæðu en 137 til þess að melta óunna fæðu. Við fyrstu sýn virðist þessi munur ekki mikill en þegar þessi munur er til staðar vikum, mánuðum og árum saman í hverri máltíð er hitaeiningafjöldinn orðinn umtalsverður. Smátt og smátt læðist offitupúkinn á sinn stað og safnast þegar saman kemur.

(Food Nutrition research, 54: 5144, 2010)