Að jafnaði dæma 7 eða 9 dómarar á fitness- og vaxtarræktarmótum. Til þess að öðlast dómararéttindi fyrir innanlandsmót þarf viðkomandi að taka svonefnt dómarapróf. Hægt er að taka prófið á Bikarmótinu sem fer fram í Háskólabíói í nóvember.

Til þess að fá réttindi til að dæma á landsmótum þarf áður að taka próf sem felst í að taka svonefnda bakdóma sem verða að ná 80% nákvæmni þegar lágmark 12 manna flokkar eru dæmdir. Notuð er svonefnd „Deviation method“ aðferð til þess að meta hvort dómar séu við 80% meðaltal miðað við úrslit. Standist bakdómari þetta próf er honum heimilt að dæma á næsta landsmóti.

Þeir dómarar sem hafa verið að dæma á undanförnum mótum eru flestir miklir reynsluboltar sem hafa dæmt í mörg ár. Með fleiri keppnisflokkum og fleiri keppendum eykst hinsvegar þörfin fyrir fleiri dómara. Æskilegt er að geta haft fleiri dómara þannig að alltaf sé hægt að hafa 9 dómara og dreift dómgæslunni á fleiri.

Þeir sem hafa áhuga á að þreyta dómarapróf eru hvattir til að senda tölvupóst á undirritaðann á netfangið keppni@fitness.is. Reynt verður að koma sem flestum að og eru konur sérstaklega hvattar til að reyna við dómaraprófið. Fyrrverandi keppendur eða fólk sem telur sig hafa það til að bera sem þarf til að standast dómaraprófið ættu endilega að láta á það reyna. Undirritaður er opinn fyrir því að sem flestir reyni við dómaraprófið en áskilur sér þó rétt til þess að afþakka próftilraunir ef ástæða þykir til.

Einar Guðmann, yfirdómari Alþjóðasambands líkamsræktarmanna