Mataræði sem byggist á svokallaðri ketó-kenningu fær innan við 10% hitaeininga úr kolvetnum og allt að 60% úr fitu. Vinsældir þessa megrunarkúrs má rekja til mikillar umfjöllunar um rannsóknir sem benda til að prótín- og fituríkt mataræði skili meiri léttingu en hefðbundin orkuefnaskipting fyrstu þrjá mánuðina. Munurinn er þó lítill og einungis tímabundinn.

Því miður mældust miklar afturfarir í hámarks súrefnisupptöku, kraftur minnkaði og efnaskipti kólesteróls breyttust til hins verra.

Heilinn notar fyrst og fremst glúkósa (sykur) sem orkuefni en hann getur líka notað ketóna og laktat. Þegar lítið er um kolvetni og hitaeiningar í mataræðinu framleiðir lifrin ketóna til að útvega heilanum orku. Ketónar eru myndaðir úr fitusýrum sem losna í fitubrennsluferlinu sem fer í gang þegar skortur er á hitaeiningum og kolvetnum.

Samkvæmt könnun sem Paul Urbain við háskólann í Freiburg í Þýskalandi gerði kom í ljós að ketógenískt mataræði er afar óheppilegt fyrir íþróttamenn. Fjörutíu og tveir fullorðnir karlmenn í góðu formi fóru á sex vikna mataræði sem samanstóð af fituríkum og kolvetnalágum fæðutegundum. Hitaeiningar voru ekki skornar niður. Þeir léttust um eitt kíló af fitu og eitt kíló af hreinum vöðvum og framfarir urðu í blóðsykurstjórnun líkamans. Því miður mældust miklar afturfarir í hámarks-súrefnisupptöku, kraftur minnkaði og efnaskipti kólesteróls breyttust til hins verra. Ketógenískt mataræði hentar alls ekki íþróttamönnum vegna þess að það dregur úr almennri hreysti og rýrir hreinan vöðvamassa.

(Nutrition & Metabolism, 14: 17)