ketilbjalla og konaÆfingar með ketilbjöllum byggjast á hröðum hreyfingum sem reyna um leið á jafnvægi og stöðugleika mjaðma og fóta um leið og beita þarf bakinu rétt án of mikilla átaka. Heildrænar hreyfingar alls líkamans byggjast á samhæfingu tauga- og vöðva sem kemur að gagni við uppbyggingu vöðva sem við notum í daglegu lífi og íþróttum. Í flestum tilfellum byrja ketilbjölluæfingar á hinni hefðbundnu stellingu þar sem staðið er með hnén bogin, mjaðmir aftur, handleggi fram, brjóstkassann út en hryggurinn og höfuð eru bein og hlutlaus. Þetta er grunnstellingin á bak við ketilbjölluæfingar sem jafnframt er góður jarðvegur fyrir nánast allar hreyfingar líkamans.
Undanfarið hafa hinir ýmsu fræðingar á sviði líkamsræktar fjallað um muninn á ketilbjölluæfingum og öðrum hefðbundnum æfingum með lóð. Það er alveg ljóst að ketilbjölluæfingar gagnast vel í vöðvauppbyggingu og til að byggja upp styrk í ýmsum fjölbreyttum hreyfingum. Það eru hinsvegar afar takmarkaðar sannanir sem benda til þess að þær hafi eitthvað að bjóða umfram hefðbundin lóð. Æfingar með ketilbjöllum eru auk þess í mörgum tilfellum það flóknar að margir framkvæma þær ekki rétt og geta þannig orðið fyrir meiðslum í baki og öxlum. Vissulega getur hið sama átt við um hefðbundnar lóðaæfingar sem ekki eru framkvæmdar rétt, líklega er skynsamlegast að horfa á ketilbjöllur sem aukna fjölbreytni í æfingum. Það er hægt að framkvæma margar skemmtilegar æfingar með ketilbjöllum sem er ekki jafn heppilegt að gera með handlóðum og því er réttast að líta á þær sem viðbót við æfingamöguleikana en ekki endilega hina einu sönnu aðferð.
(Strength and Conditional Journal, 35 (5): 27-28, 2013)