Keppt er í nokkrum keppnisgreinum hjá IFBB, Alþjóðasambandi líkamsræktarmanna. Hér skal leitast við að útskýra muninn á þeim helstu og einkennum hverrar keppnisgreinar. Í flestum greinum er keppt í unglinga-, opnum- og öldungaflokkum og þeim jafnvel skipt niður í þyngdar- eða hæðarflokka.

Hafa ber í huga að hér á eftir er um að ræða almenna lýsingu á þessum keppnisgreinum en ekki ítarlegar reglur.

Efstu sex keppendurnir.
Efstu sex keppendurnir í módelfitness (Bikini-fitness) á Arnolds 2016. Keppandi þrjú frá vinstri sigrar. Leitað er að mjúkum línum. Lítil sem engin áhersla lögð á vöðvamassa, en mikil áhersla lögð á samræmi og hlutföll.

Módelfitness (Bikini-fitness)

Keppni í módelfitness hjá IFBB hófst árið 2011 en hér á landi 2006. Þetta er keppnisgrein sem hentar konum sem vilja borða heilbrigt mataræði og halda sér í góðu formi. Dómforsendur byggjast á heildarsamræmi og hlutföllum á milli líkamshluta og áferð líkamsbyggingarinnar. Vöðvamassi og vöðvaþroski leikur lítið hlutverk og því er óþarfi að leggja mikla áherslu á styrktarþjálfun. Áhersla er lögð á sömu eiginleika og æskilegir þykja hjá fyrirsætum en forsendan er heilbrigður og samræmdur vöxtur en einkenni sveltis eru óæskileg. Upphaflega var keppt í einum opnum flokki en vegna mikillar þátttöku er keppt í sex hæðarflokkum í dag: 160 sm, 163 sm, 166 sm, 169 sm, 172 sm og yfir 172 sm.

Fitness kvenna á HM í Búdapest 2015.
Fitness kvenna á HM í Búdapest 2015. Vöðvamassi og vöðvaskil orðin meiri en í módelfitness en töluvert undir þeim vöðvamassa sem æskilegur er í ólympíufitness.

Fitness kvenna (Bodyfitness)

Byrjað var að keppa í fitness kvenna hjá IFBB árið 2002 til þess að bjóða konum upp á keppnisgrein sem byggðist fyrst og fremst á samanburði en ekki frjálsum æfingum. Þegar upp er staðið hefur þessi keppnisgrein náð meiri vinsældum en fitness kvenna með frjálsum æfingum og fjöldi keppenda hefur farið vaxandi. Nokkrum árum síðar var bætt við svonefndri T-göngu sem lagði áherslu á að sýna eiginleika hvers og eins keppanda betur.

Keppt er í tveimur lotum þar sem keppendur taka fjórðungssnúninga í bikíní að eigin vali og á háhæluðum skóm með lágum botni. Í úrslitunum í lotu tvö fara keppendur í T-göngu og síðan fjórðungssnúninga í hóp.

Dómarar meta heildarútlit líkamans í öllum lotunum með hliðsjón af samræmi, áferð og lögun vöðvana, hóflegri líkamsfitu en einnig er tekið tillit til förðunar, hárs og framkomu hvers og eins. Fas og glæsileiki skiptir máli. Þessi keppnisgrein er heppileg fyrir allar vel vaxnar konur sem æfa mikið og vilja fylgja heilbrigðu mataræði og lífsstíl og nýta sér kostina sem það hefur upp á að bjóða.

Eins og í fitnessflokkunum eru það stigin í úrslitalotunni sem ráða endanlegri sætaröðun. Keppt er í fjórum hæðarflokkum: 158 sm, 163 sm, 168 sm og yfir 168 sm.

Ólympíufitness (Women´s physique) á heimsmeistaramótinu 2015.
Ólympíufitness (Women’s physique) á heimsmeistaramótinu 2015.

Ólympíufitness kvenna (Women’s physique)

Keppni í ólympíufitness kvenna hófst árið 2013 á alþjóðlegum mótum hjá IFBB. Keppnisgreinin er ætluð konum sem vilja byggja upp þyngri og vöðvastæltari líkama eins og tíðkast í vaxtarrækt en þó ekki með sama vöðvamassa, þroska og eins þurra vöðvaáferð. Vaxtarlagið þarf að bera vott um mikla þjálfun en vera um leið áferðarfallegt og samræmt.

Samtals er keppt í þremur lotum. Í fyrstu lotunni í forkeppninni eru keppendur bornir saman í fjórðungssnúningum og fjórum skyldustöðum. Í úrslitum eru teknar skyldustöður og svonefnt „posedown“ sem er einskonar endaprettur í stöðum að eigin vali keppenda. Í þriðju lotu framkvæma keppendur hálfrar mínútu frjálsar stöður við tónlist.

Ólympíufitness er keppnisgrein sem staðsetja má á milli fitness kvenna og vaxtarræktar en vaxtarrækt kvenna var lögð niður sem keppnisgrein hjá IFBB árið 2013.

Keppendur þurfa að sýna fram á alhliða þjálfun vöðvabyggingarinnar en um leið rétt hlutföll, samræmi allra vöðvahópa og áferðarfallegt form hvers og eins vöðva ásamt skurðum.

Keppt er í tveimur flokkum í ólympíufitness: undir og yfir 163 sm.

Sportfitness (Men´s physique) á HM í Búdapest 2015.
Sportfitness (Men’s physique) á HM í Búdapest 2015. Sportfitness er ætlað körlum sem stunda styrktaræfingar, halda sér í formi með hollu mataræði og vilja byggja upp hóflega vöðvastæltan líkama.

Sportfitness karla (Men’s physique)

Það var 2012 sem sportfitness karla varð keppnisgrein innan IFBB. Reynslan hefur sýnt að þetta er fjölmenn keppnisgrein sem á skömmum tíma hefur orðið til þess að í dag er keppt í fjórum hæðarflokkum: 170 sm, 174 sm, 178 sm og yfir 178 sm. Keppt er í tveimur lotum þar sem keppendur fara í samanburð í fjórðungssnúningum í svonefndum brettabuxum. Lota tvö hefst með stuttri kynningu á hverjum keppanda.

Sportfitness er ætlað körlum sem stunda styrktaræfingar, halda sér í formi með hollu mataræði og vilja byggja upp hóflega vöðvastæltan líkama. Keppendur þurfa að búa yfir góðu samræmi á milli vöðvahópa og áhersla er lögð á hóflegan vöðvamassa. Góð sviðsframkoma þjónar því hlutverki að koma fáguðu líkamsformi á framfæri.

FitnesskarlaAC-Classic-12
Fitness karla (Classic bodybuilding). Þak er á vöðvamassa vegna þyngdartakmarkana miðað við hæð. Vöðvamassi æskilegur innan þeirra marka sem formúla um hámarksþyngd gagnvart hæð leyfir.

Fitness karla (Classic bodybuilding)

Um er að ræða keppnisflokk karla sem ekki vilja þróa líkama sinn með sömu öfgum og leyfilegar eru í vaxtarrækt heldur fremur klassískara og hóflegra vaxtarlag.

Þyngdartakmarkanir eru í þessum flokki til að jafna möguleika á milli misjafnlega hávaxinna keppenda. Fylgt er ákveðinni hæðar- og þyngdarformúlu og skipt í hæðarflokka. Keppt er í fimm hæðarflokkum á alþjóðlegum mótum: 168 sm, 171 sm, 175 sm, 180 sm og yfir 180 sm.

Vöðvamassi er takmarkaður og því leggur dómgæslan áherslu á að meta heildarútlit líkamans, bæði samræmi, línur, vöðvalag og formið þeirra með hliðsjón af þéttleika, fitumagni, þroska og skurðum. Dómarar meta þessi atriði í þremur lotum. Í lotu tvö gerir keppandinn frjálsar stöður eins og í vaxtarræktinni við tónlist að eigin vali.

vaxtarraekt
Efstu menn í vaxtarrækt atvinnumanna á Arnold Classic 2016. Vöðvamassi ótakmarkaður. Fitness karla (Men’s Classic Bodybuilding) byggist á hóflegri kröfum um vöðvamassa og áherslu á samræmi.

Vaxtarrækt (Bodybuilding)

Keppandinn þjálfar alla líkamsparta og vöðva til þess að ná hámarksstærð en engu að síður í samræmi og réttum hlutföllum. Það ættu ekki að vera „veikir punktar“ í samræmi líkamans eða á milli vöðva og vöðvahópa. Ennfremur þurfa keppendur að fylgja sérstöku æfingakerfi fyrir mót til að draga úr líkamsfitu eins og hægt er og losna við vatn undir húð til að gera vöðvana eins sýnilega og kostur er til þess að sýna fram á þéttleika, skurði og fágun í vöðvum. Sá sem getur sýnt skurði og stærð vöðvana betur en aðrir keppendur fær hærri stig. Samræmi er metið sem hluti af heildarmynd líkamans. Í góðu samræmi felst góð axlabreidd, mjótt mitti, hæfileg fótalengd og lengd efri hluta líkamans.

Þessir eiginleikar eru sýndir í tveimur lotum á sviði þar sem keppendur framkvæma sjö skyldustöður í samanburði á milli þriggja til fimm keppenda að tillögu dómara. Keppendur eru berfættir í skýlum. Keppt er í 10 þyngdarflokkum hjá körlum: 60 kg, 65 kg, 70 kg, 75 kg, 80 kg, 85 kg, 90 kg, 95 kg, 100 kg og yfir 100 kg.

Keppendur framkvæma einnig sýningarlotu þar sem líkamsformið er sýnt í 60 sekúndna lotu frjálsra æfinga við tónlist að eigin vali. Lotan er framkvæmd á listrænan og aðlaðandi hátt og felur í sér bæði skyldustöður og frjálsar stöður að vali keppandans auk annarra hreyfinga. Alls er keppt í þremur lotum en í hverri lotu gefa dómarar keppendum sæti.

FitneskvennarutinaPaveley

Fitness kvenna með frjálsum æfingum (Women’s fitness)

Byrjað var að keppa í fitness kvenna með frjálsum æfingum á alþjóðlegum mótum árið 1996 vegna þrýstings frá fjölda keppenda sem vildu fá keppnisgrein fyrir konur sem vilja þróa mjög hóflega vöðvastæltan líkama og sýna atgervið með æfingum í formi fitness- og æfingalotu við tónlist. Í þessari keppnisgrein er áhersla lögð á fallegan íþróttamannslegan vöxt sem dæmdur er með samanburði í fjórðungssnúningum og út frá hæfni í fitness- eða æfingalotu. Keppt er í tveimur hæðarflokkum, undir og yfir 163 sm.
Dómarar horfa eftir styrk í frjálsu æfingunum, liðleika, takti, tæknilegri framkvæmd og glæsilegri framkomu. Keppendur mega nota leikmuni sem tengjast búningnum sem þeir klæðast að eigin vali.
Til viðbótar við lotuna með frjálsu æfingunum eru samanburðarlotur dæmdar. Í lotu eitt og þrjú framkvæmir keppandinn fjórðungssnúninga í bikini og dómarar meta heildrænt líkamsform, heildarsamræmi, hóflega skurði og þroska í vöðvum ásamt sviðsframkomu sem dæmd er út frá sjálfsöryggi, fasi og samhæfingu hreyfinga.
Þegar fleiri en 15 keppendur eru í sama flokk er fyrsta samanburðarlotan og lotan með frjálsu æfingunum sem er lota tvö tekin í forkeppninni. Sex efstu keppendurnir framkvæma frjálsu æfingarnar aftur í úrslitunum sem þá er lota 3 og síðan lotu 4 sem er samanburðarlota. Samanlögð stig þessara síðustu tveggja lota gilda til úrslita.

FitnesskarlarutinaKharkhun

Fitness karla með frjálsum æfingum (Men´s fitness)

Þessi keppnisgrein byggist á sömu grundvallaratriðum og fitness kvenna með frjálsum æfingum. Hinsvegar eru þyngdartakmarkanir sem setja þak á hámarksþyngd keppenda eftir hæðarflokkum: 170 sm, 175 sm, 180 sm og yfir 180 sm. Í augnablikinu er keppt í einum opnum flokki.

Keppt er í fjórum lotum þar sem fyrsta og þriðja lotan eru frjálsar æfingar og í lotu 2 og 4 dæma dómarar út frá samanburði. Í fjórðungssnúningunum eru keppendur í skýlum og dómarar meta heildrænt líkamsform. Frjálsu æfingarnar þurfa að sýna fram á styrk, liðleika, fimleika og aðrar hreyfingar sem draga fram færni keppandans.

Stigin úr lotu 3 og 4 gilda til úrslita meðal sex efstu keppendana. Keppendur í sætum 7 til 15 halda þeim stigum sem þeir fengu í forkeppninni.

itrottafitness

Íþróttafitness (Athletic-fitness)

Íþróttafitness reynir á keppandann á ýmsa vegu. Keppt er í samanburði með fjórðungssnúningum en jafnframt er einnig keppt í frjálsri æfingalotu við tónlist, upptogi og dýfum og róðrakeppni. Í gegnum árin hefur keppnin verið útfærð á ýmsa vegu, m.a. með hindranabraut eins og gert var hér á landi í upphafi þessara keppna. Fitnessmót hér á landi voru fyrst í stað haldin með þessu sniði þegar karlakeppnin kom til sögu 1999. Hið kaldhæðnislega er að nokkrum árum eftir að hætt var að keppa í þessari grein hér á landi og fitnesskeppnir fólust fyrst og fremst í samanburði á sviði, þá hóf IFBB að kynna íþróttafitness sem keppnisgrein. Erfiðlega hefur gengið að endurvekja þessa skemmtilegu og erfiðu keppnisgrein hér á landi.

2015 IFBB World Championships mixed pairs category winners: Eva RUSAN – Sandi IMEROVIC (Croatia).
Sigurvegarar á heimsmeistaramótinu 2015 í parakeppni: Eva RUSAN – Sandi IMEROVIC (Croatia). Parið er metið sem ein heild þar sem athygli dómarans beinist að því hversu vel líkamsbygging beggja keppenda bætir hvorn annan upp og samræmi þeirra í hreyfingum.

Parakeppni (Mixed-pairs)

Parakeppni er rótgróin keppnisgrein innan IFBB sem hófst 1983. Í ljósi þess að hætt var að keppa í vaxtarrækt kvenna 2013 var reglum breytt á þann veg að keppnisgreinin er opin keppendum í öllum keppnisgreinum kvenna. Karlarnir framkvæma skyldustöður eins og í vaxtarrækt karla og konurnar sömu skyldustöður og teknar eru í ólympíufitness kvenna. Keppnisfatnaður karla er sá sami og í vaxtarrækt og keppnisfatnaður kvenna er sá sami og í ólympíufitness.

Keppt er í þremur lotum í parakeppni: Fyrsta lotan í forkeppninni er samanburður og lota tvö í úrslitum er einnig samanburður í skyldustöðum. Lota þrjú er tekin í úrslitunum en þar taka keppendur frjálsar stöður.

Dómarar meta heildarform beggja keppenda í parakeppninni með hliðsjón af samræmi, hlutföllum, vöðvastærð, gæðum og þéttleika vöðva og skurða ásamt húðáferð. Parið er metið sem ein heild þar sem athygli dómarans beinist að því hversu vel líkamsbygging beggja keppenda bætir hvorn annan upp og samræmi þeirra í hreyfingum.

Í frjálsu stöðunum metur dómarinn hversu vel parið sýnir formið við tónlist. Höfð er hliðsjón af mjúkum, listrænum og vel samhæfðum æfingum sem geta falið í sér margar stöður en keppendur þurfa að taka skyldustöðurnar sem hluta af frjálsu stöðunum. Nauðsynlegt er að keppendur stöðvi hreyfingar af og til þannig að dómarar geti metið líkamsformið og vöðvaþroska.

Uppfært 7. mars 2016. EG.