Pálmar Hreinsson setti glæsilegt íslandsmeti á ÞrekmeistaranumÞrekmeistaramót var haldið á Akureyri um helgina þar sem Pálmar Hreinsson sigraði á tímanum 17.13 mín sem er nýtt íslandsmet. Pálmar bætti eldra Íslandsmet Lárusar Mikaels frá Ísafirði um tvær og hálfa mínútu sem er frábær árangur. Í kvennaflokki sigraði Valdís Hallgrímsdóttir á tímanum 21.18 og bætti þar sitt eldra íslandsmet um hálfa mínútu.

Liðakeppnin var fjörug að vanda og í liðakeppni karla sigraði liðssveitin Nöldur og Nagg frá Vaxtarræktinni á Akureyri á tímanum 15.32. Í liðakeppni kvenna sigraði sveitin Fimm Fræknar frá æfingastöðinni Lífsstíl á tímanum 18:30.

Stórkostlegar bætingar
Árangur Pálmars er frábær í ljósi þess að hann bætti fyrra íslandsmetið um rúmlega tvær og hálfa mínútu. Fyrra metið sem Lárus Mikael átti frá því á síðasta Íslandsmóti þótti ennfremur frábær árangur og ótrúlegt að bæta metrið jafn mikið og Pálmar gerði. Lárus Mikael bætti sitt fyrra met um hálfa mínútu og fór á tímanum 19.15 en það dugði honum í annað sætið. Sjálfur náði Pálmar tímanum 19:56 á síðasta Þrekmeistaramóti. Árangur Pálmars sýnir að enn sér ekki fyrir endan á tímabætingum í Þrekmeistaranum enda sífellt fleiri sem æfa sérstaklega undir þessa keppni, þó margir taki þátt sér til skemmtunar.

Baráttan jafnari í kvennaflokknum
Valdís Hallgrímsdóttir kom frá Noregi til þess að taka þátt í Þrekmeistaranum og hafði undirbúið sig vel fyrir keppnina. Að sögn Valdísar hefur hún mjög gaman að því að keppa í Þrekmeistaranum og var ánægð með að hafa bætt sitt fyrra met um hálfa mínútu. Þegar tímarnir eru orðnir þetta góðir verður sífellt erfiðara að bæta þá en ánægjulegt að bæta persónulegan árangur. Hörð keppni var í kvennaflokknum og sýndi Hrönn Einarsdóttir talsverðar bætingar er hún náði tímanum 22:22 sek en hún hafnaði í öðru sæti. Þriðja varð Harpa Hlín Jónsdóttir frá Ólafsfirði á tímanum 22:31. Þetta var hennar fyrsta Þrekmeistarakeppni og má því búast við að sjá og heyra meira frá henni á þessu sviði í framtíðinni.

Nöldur og Nagg kom á óvart
Í liðakeppni karla var búist við harðri keppni enda voru öll liðin samsett af reyndum liðsmönnum. Nöldur og Nagg sem samanstendur af liðsmönnum sem æfa Vaxtarræktinni á Akureyri kom talsvert á óvart með grimmri og samhentri baráttu sem skilaði sér í tíma sem er einungis 12 sek frá Íslandsmetinu í þessum flokki. Liðsmenn Nöldurs og Naggs hafa æft nokkuð lengi fyrir Þrekmeistarann og ætla sér stóra hluti í þessari keppni í framtíðinni.

Jafnt í liðakeppni kvenna
Mikil stemming var í liðakeppni kvenna eins og endranær. Mjög jafnt var á með þremur efstu liðunum og munaði innan við 20 sek á þeim. Fimm Fræknar æfa í Lífsstíl í Keflavík, en þar hefur verið mikill áhugi á Þrekmeistaranum. Fimm fræknar samanstanda af Ernu Lind Rögnvaldsdóttur, Helgu Björg Hólmgeirsdóttur, Kristjönu Hildi Gunnarsdóttur, Maríu Óladóttur og Ólafíu Guðrúnu Bragadóttur.  Í öðru sæti varð liðið Hressó Herinn frá Vestmannaeyjum en þær urðu einungis 9 sek á eftir Fimm Fræknu. Þriðju urðu síðan Kiðlingarnir frá Ólafsfirði á tíu sekúndum þar til viðbótar, eða tímanum 18:49.

Þrekmeistaramót í haust
Haldið verður Þrekmeistaramót í haust á Akureyri sem búast má við að verði fjölmennara en nýliðin keppni. Sumarið var greinilega farið að setja strik í reikninginn fyrir þátttöku sumra og voru því “einungis” 52 keppendur en fastlega er búist við að þátttökufjöldinn í haust fari í annað hundraðið ef miðað er við Íslandsmótið sem haldið var sl. haust þar se 96 keppendur mættu til leiks.


Millitímar eru einnig komnir í greinasafnið.