Einhverjir hafa verið undrandi á skrifum Fitnessfrétta um efedrín í bætiefnablöndum sem eru bannaðar og hafa sjálfir varpað fram þeirri spurningu af hverju verið sé að skrifa um bætiefni eða lyf sem eru bönnuð hér á landi. Við þá er ekkert að segja nema það að kominn er tími til að vakna. Undirritaður hefur líklega betri innsýn í stöðu líkamsræktargeirans hér á landi en margur annar, enda er það fólgið í starfinu að fylgjast með þeim geira. Notkun bætiefna sem innihalda efedrín hefur farið sem eldur í sinu undanfarin tvö ár og ljóst að þessi bætiefni hafa hjálpað fólki að ná miklum árangri í líkamsrækt. Því miður er það svo. Það er ekki hægt annað en að fjalla um ýmis bætiefni sem talin eru til áhrifaríkustu bætiefnana erlendis, sérstaklega þegar notkun þeirra hér er orðin jafn algeng og raun ber vitni bak við tjöldin.

Það að mörg þeirra skuli vera bönnuð hér á landi er ekki endilega merki um verndun eða betra eftirlit heldur gæti verið merki um rótgrónari forsjárhyggju. Nánast allir bætiefnaframleiðendur í heiminum framleiða einhverja bætiefnablöndu sem inniheldur efedrín og sú spurning hvort ætti að leyfa það hér á landi er því ekkert annað en eðlileg. Fullyrðingar um að efedrín sé fíkniefni eru í besta falli barnaleg tilraun til þess að slá sig til riddara í fjölmiðlum. Eitt helsta markmið FDA Matvæla- og lyfjaeftirlits Bandaríkjanna með rannsóknum á efedríni þessa dagana er að kanna m.a. hvort það sé ávanabindandi eða valdi fíkn, en ekkert hefur komið fram ennþá sem bendir í þá áttina. Það er meira en hægt er að segja um kaffi og súkkulaði.

Efedrín veldur aukaverkunum sé rangt með farið og hugsanlega mjög alvarlegum aukaverkunum en það sama má reyndar segja um fjölda annarra efna. Það er t.d. mjög varasamt fyrir fólk með of háan blóðþrýsting að taka bætiefni sem innihalda efedrín vegna hættu á hjartavandamálum og er þá fátt eitt talið og ekki dregið úr gildi þess hér að fara varlega. Í þessari umræðu hafa menn hneigst til að setja öll bætiefni undir sama hatt og jafnvel verið hræddir um að þau bætiefni sem þeir séu að taka og hafa keypt í líkamsræktarstöðvum séu ekki lögleg eða séu varasöm. Í því sambandi þurfa menn að róa sig svolítið niður og ná taki á móðursýkinni. Líkamsræktarstöðvar selja ekki bönnuð bætiefni. Það er enginn ég fullyrði engin líkamsræktarstöð sem selur bætiefni sem innihalda efedrín eða bönnuð bætiefni. Heyrst hafa fullyrðingar þess efnis í fjölmiðlum sem engin stoð er fyrir og hefur verið varpað fram af ábyrgðarleysi. Hvort einstaklingar sem æfa í þessum líkamsræktarstöðvum selji bönnuð bætiefni er annað mál 28% þjóðarinnar æfa reglulega í líkamsræktarstöðvum en það er örugglega enginn rekstraraðili líkamsræktarstöðva hér á landi svo vitlaus að selja bönnuð bætiefni. Líklegast er að notendurnir sjálfir kaupi sjálfir bætiefnin sem innihalda efedrín í verslunum erlendis.

Það að spyrja sig þeirrar spurningar hvort ætti að leyfa bætiefni sem innihalda efedrín er eðlileg. Víða erlendis kaupa menn þessi bætiefni í næstu verslun og ástæðan fyrir vinsældum þeirra er einungis ein. Þau hafa hjálpað fólki að ná af sér aukakílóunum. Punktur. Ef svo væri ekki væru ekki margar milljónir manna um allan heim að taka þessi bætiefni. Afleiðingar offituvandans eru skelfilegri en svo að við höfum efni á því að sleppa því að leita í öllum hornum að hjálparmeðulum.

Það hvort ætti að leyfa bætiefni sem innihalda efedrín skal ennþá ekkert um sagt hér. Spurningin er hinsvegar eðlileg og ætti að verða svarað innan tíðar eftir úttekt Matvæla- og lyfjaeftirlits Bandaríkjanna.

Það sem við vitum í dag um áhrif bætiefna sem innihalda efedrín er langt frá því að vera allt jákvætt og hér skal varast að mála rósrauða mynd af áhrifum efedríns. Verkun og bygging efedríns er lík adrenalíni enda virkar það örvandi á geð, minnkar svefnþörf, einbeiting eykst, athyglin verður skarpari og það dregur úr matarlyst. Aukaverkanir geta hinsvegar verið þær að hjartsláttur verður hraður og oft óreglulegur, blóðþrýstingur hækkar, vart verður þvagtregðu, sérstaklega í mönnum með of stóran blöðruhálskirtil og út frá miðtaugakerfi verður vart við kvíðaköst, svefntruflanir, taugaveiklun og skjálfta. Aukaverkanir eftir langtímanotkun  á risaskömmtum (350-2500mg á dag í 3-20 ár) lýsa sér í geðtruflunum eins og ofsóknarbrjálæði, árásargirni, þunglyndi og geðklofaeinkennum. Þetta eru ófagrar lýsingar en hafa þarf í huga að skammtastærðin er mjög mikilvægur þáttur í áhrifum á líkamann og lýsingar á aukaverkunum margra algengra lyfja sem tekin eru of lengi eða í of stórum skömmtum eru í svipuðum dúr.

Hóstamixtúran Paradríl sem er nokkuð algeng er hér á landi inniheldur efedrín og er lyfseðilsskyld svo fordæmi er fyrir því að efedrín sé leyft hér á landi, en spurningin er sú hvort bætiefni sem innihalda efedrín þurfi ekki að vera lyfsseðilsskyld vegna hugsanlegra aukaverkana. Hver svo sem framtíð þessara tilteknu bætiefna verður hér á landi er ljóst að notkunin er algengari en menn grunar og mjög erfitt er að sporna við þeirri eftirspurn sem er eftir þessum bætiefnum. Meira eða minna öll líkamsræktartímarit í heiminum í dag eru full af auglýsingum á bætiefnum sem innihalda efedrín.

Tekið skal fram að bætiefni sem eru bönnuð hér á landi eru ekki auglýst né seld af umboðsaðilum hér á landi. Til þess að einfalda málið er hér á eftir listi yfir helstu bætiefni sem innihalda efedrín. Einhver gæti þó vantað á listann.

Bætiefni sem innihalda efedrín og eru bönnuð hér á landi.

 

Bætiefni

Framleiðandi

Xenadrine

Cytodine Technologies

Ripped Fuel

TwinLab

Diet Fuel

TwinLab

Thermicore

Met-Rx

Hydroxycut

Muscletech

Metacuts

Metaform

Zyladex Plus

Medlab

Bio-energetic

Trek Alliance

Metabolife 356

Metabolife

BetaLean HP

EAS

Meira um efedrín:

http://www.ephedrafacts.com/dependence.htm

http://www.supplementwatch.com/sup-atoz/m/mahuang.html

http://www.ephedrafacts.com/gaoreport.htm

Einar Guðmann, ritstjóri