Það að hrjóta mikið að nóttu til brennir jafn mörgum hitaeiningum og sæmileg æfing. Að sjálfsögðu var þetta rannsakað eins og allt annað í Bandaríkjunum. Það voru vísindamenn við San Fransisco læknaskólann sem er hluti Kaliforníuháskóla sem komust að því að þeir sem þjáðust af kæfisvefni brenndu 300 fleiri hitaeiningum á dag en samanburðarhópur.

Kæfisvefn er nokkuð algengur hjá þeim sem hrjóta mikið.

Ekki er það nú svo að þeir sem hrjóta mikið séu fyrir vikið tágrannir og spengilegir. Flestir bæta sér nefnilega upp orkubrennsluna með því að borða meira yfir daginn og hreyfa sig minna en aðrir. Kæfisvefn lýsir sér þannig að öndunin stöðvast í skamman tíma af og til yfir nóttina. Afleiðingarnar eru lélegur svefn og syfja yfir daginn auk hættulegra hjartsláttartruflana.

Offita getur hæglega verið ein aukaverkun kæfisvefns en ekki eru allir feitir sem þjást af kæfisvefni. Offitan ýtir hugsanlega í einhverjum tilfellum undir kæfisvefn vegna þess að þykkur háls og lélegt ástand vöðva í hálsinum getur gert illt verra. Aukakíló breyta líka efnaskiptum líkamans sem getur orðið til þess að trufla eðlilegar svefnvenjur. Oftast er kæfisvefn meðhöndlaður með því að reyna að losna við aukakílóin, skurðaðgerð eða notkun sérstakra öndunarvéla. Ráðlegt er að leita læknis ef þú átt erfitt með að sofa eða finnur fyrir óeðlilega mikilli syfju yfir daginn. Kæfisvefn er lífshættulegur.

(BBC News, 16. desember 2008)