Á sínum tíma varð allt vitlaust í heilsugeiranum þegar vísindamenn sýndu fram á að fjölómettaðar fitusýrur væru hollari en mettaðar. Í kjölfarið fylltust allar hyllur heilsuverslana af jurtaolíum sem eru fjölómettaðar.

Í umræðunni gleymdist að taka fram að rannsóknirnar á fjölómettuðu fitusýrunum áttu fyrst og fremst við um fitusýrur í sínu náttúrulega formi, en ekki átappaðar olíur á brúsa og hitaðar að auki.  Jákvæðu áhrifin tilheyra því fyrst og fremst hráfæði.
Hollenskir vísindamenn hafa nýverið sýnt fram á að við ættum að gera minna af því að sjóða grænmetið okkar. Rannóknin sem þeir gerðu snérist um að kanna næringargildi ávaxta og grænmetis í unnu og óunnu formi. Niðurstöðurnar voru samkeyrðar við gögn um heilablóðfallatilfelli. Hráfæðið skar sig úr hvað þetta varðar. Þeir sem borða mest af hráfæði eru í 50% minni hættu en aðrir. Unnið eða soðið grænmeti virtist ekki hafa nein verndandi áhrif í þessa áttina. Ástæðuna telja þeir að sé sú að ferskt grænmeti inniheldur ennþá trefjar og önnur mikilvæg næringarefni. Um leið og grænmeti er soðið glatast flest næringaefnin út í soðvatnið.
(European Journal of Clinical Nutrition)