Á Íslandsmótinu í fitness sem fram fór í Íþróttahöllinni urðu þau Guðni Freyr Sigurðsson og Heiðrún Sigurðardóttir Íslandsmeistarar fullorðinna, Reynir Jónasson og Sólveig Silfá Sveinsdóttir urðu Íslandmeistarar unglinga og Íslandsmeistari öldunga varð Sigurkarl Aðalsteinsson.

Í kvennaflokki sigraði Anna Bella Markúsdóttir samanburðinn sem þýðir að hún er efst á lista þeirra sem vinna sér inn þátttökurétt á erlend mót á árinu.

Hér á eftir eru myndir og umfjöllun um einstaka flokka í keppninni. Það var rafmögnuð spenna í loftinu þegar tilkynnt var um sigurvegara á Íslandsmótinu í fitness sem haldið var í Íþróttahöllinni á Akureyri um Páskahelgina.

Fyrirfram var búist við harðri keppni í kvennaflokki á milli þeirra Önnu Bellu Markúsdóttur, Heiðrúnu Sigurðardóttur og Sifjar Garðarsdóttur enda kom það á daginn.

Í samanburði hafði Anna Bella vinninginn í tveimur lotum af þremur þar sem keppendur koma fram í svörtu bikini og marglitu en í þriðju lotunni þar sem keppendur koma fram í sundbol hafði Heiðrún vinninginn með einu stigi. Í heild sigraði Anna Bella þó í samanburði sem þýðir það að hún er efst á lista þeirra sem vinna sér inn þátttökurétt á mót erlendis.

Niðurstaðan í samanburðinum þurfti ekki að koma á óvart þar sem Anna Bella hafði hafnað í níunda sæti á heimsmeistaramótinu í fitness á síðasta ári. Sá árangur er sá besti sem íslendingur hefur náð á þessum vettvangi.

Bæði Anna Bella og Heiðrún voru tvímælalaust í sínu besta formi og gott betur. Anna Bella hefur náð að bæta árangur sinn á milli ára og verður því fróðlegt að fylgjast með frammistöðu hennar á komandi mótum á erlendri grundu. Skurðir voru betri og samræmi axla og handleggja hefur tekið töluverðum framförum eftir örlitla aukningu í vöðvamassa. Heiðrún var líka að sýna fram á sinn besta skurð frá upphafi og er ljóst að hún hefur náð að skera sig vel niður til þess að skerpa vöðvalínur, en reyndar á kostnað þess að fætur og mjaðmir höfðu rýrnað örlítið. Með auknum vöðvamassa í neðri búk ætti Heiðrún að taka stórstígum framförum í samræmi og hlutföllum.

Hólmdís Benediktsdóttir sýndi fram á verulegar bætingar á milli keppna og Harpa Sæmundsdóttir sem var þarna að mæta í sína fyrstu keppni villti verulega á sér heimildir þar sem hún virkaði þaulvön og kom vel undirbúin til keppni. Óneitanlega minnti Harpa ögn á Heiðrúnu eins og hún var fyrir fáum árum og má því búast við töluverðu af henni í komandi keppnum.

Það tók Heiðrúnu 1:01:03 að fara í gegnum hindranabrautina. Heiðrún sem býr að góðum bakgrunni í ýmsum íþróttagreinum hefur ávallt náð góðum tíma í brautinni og sömuleiðis Sif, sem kom skammt á eftir henni á tímanum 1:04:47. Næst á eftir þeim kom Sólveig Silfá Sveinsdóttir í unglingaflokki á tímanum 1:14.21.

Keppnin í karlaflokki gekk ekki áfallalaust fyrir sig. Óvenju mikil afföll urðu á keppendum skömmu fyrir mótið auk þess sem Sigurpáll Jóhannesson þurfti að hverfa frá keppni vegna meiðsla á fæti í brautinni eftir að hafa komið illa niður úr stiganum. Reyndist hann hafa slitnað eða tognað að hluta í kálfavöðvanum. Þrátt fyrir það tókst honum að halda áfram í brautinni og komast yfir vegginn, en þegar að því kom að fara yfir keflin var sársaukinn orðinn of mikill. Það að hann komst yfir vegginn eftir að hafa misstigið sig er afrek út af fyrir sig.

Þeir feðgar, Sigurkarl Aðalsteinsson og Aðalsteinn Sigurkarlsson áttu harða keppni í hindranabrautinni. Sigurkarl sem keppti í meistaraflokki  40 ára og eldri  hefur löngum verið manna fremstur í brautinni en í þetta sinn náði Aðalsteinn besta tíma allra keppenda í brautinni. Aðalsteinn fór á tímanum 54.20, en Sigurkarl 58.47. Það var skemmtilegt að sjá hvernig keppnin fór vaxandi á milli þeirra feðga þrátt fyrir að þeir væru að keppa í sitthvorum flokknum, en Aðalsteinn náði líka þremur fleiri lyftum í upptogi og dýfum heldur en sá gamli. Sigurbjörn Ingi Guðmundsson fór brautina á tímanum 54.28, eða einungis sekúndubrotum á eftir Aðalsteini. Þriðja besta tímann átti Kristján Samúelsson.

Guðni Freyr átti flestar dýfur af öllum keppendum. Guðni náði 24 upptogum og 55 dýfum eða samtals 79. Á eftir honum kom Aðalsteinn Sigurkarlsson með 22 upptog og 54 dýfur eða samtals 76. Þriðji varð Reynir Jónasson sem keppti í unglingaflokki með 23 upptog og 52 dýfur eða 75.

Alls kepptu 9 karlar þremur flokkum. Í flokki fullorðinna voru gríðarlega sterkir keppendur, þeir Guðni Freyr Sigurðsson sem þrisvar hefur hafnað í öðru sæti á Íslandsmótinu, Kristján Samúelsson sem hafði Íslandsmeistaratitil að verja og Sigurbjörn Ingi Guðmundsson sem varð Íslandsmeistari 2002 og 2003. Það var langur vegur frá því að augljóst væri hver væri sterkastur í samanburðinum en það fór svo að Kristján varð fyrstur, Guðni annar og Sigurbjörn þriðji. Að lokum varð Guðni Íslandsmeistari fullorðinna en til marks um það hversu litlu munaði á efstu keppendum, þá munaði einungis einu stigi á honum og Kristjáni í heildarstigum.

Í öldungaflokki eða svokölluðum meistaraflokki sem er flokkur 40 ára og eldri mættust þeir Sigurkarl Aðalsteinsson og Birgir Arnarsson. Báðir komu þeir vel undirbúnir til keppni en það var Sigurkarl sem stóð uppi sem meistari í meistaraflokki eftir harða keppni. Sigurkarl átti samtals 73 lyftur í æfingum, Birgir 61 og í hindranabrautinni fór Sigurkarl á tímanum 58.47, en Birgir á tímanum 1:07:05.

Tveir keppendur voru í unglingaflokki, þeir Reynir Jónasson og Andri Björnsson. Þeir skiptust á um að hafa betur í æfingum og hindranabrautinni, þar sem Andri vann hindranabrautina á tímanum 1:00:39 og Reynir fór á tímanum 1:03:12. Í æfingum náði Reynir samtals 75 lyftum sem er með því besta af öllum keppendum en Andri náði 47 gildum lyftum. Í samanburði hafði Reynir betur en þeir voru báðir vel undirbúnir og eiga greinilega framtíðina fyrir sér í þessari íþróttagrein.

Þrír keppendur voru í unglingaflokki kvenna. Keppnin var nokkuð jöfn þar, en keppendur ólíkir í samanburði. Samræmi og hlutföll voru með ágætum hjá öllum keppendum en þeir voru ólíkir að því leyti að Sólveig Silfá Sveinsdóttir sem hafnaði í fyrsta sæti var mest skorin á meðan Sunna Hlín Gunnlaugsdóttir sem hafnaði í þriðja sæti bjó yfir mýkri línum en fínum hlutföllum enda glæsileg. Guðrún Hólmfríður Ólafsdóttir sem hafnaði í öðru sæti kom mjög vel undirbúin til keppni og hafði greinilega bætt sig mikið á milli keppna.

Það er árangur í samanburði sem ræður því hvernig forgangsraðað er í erlend mót. Anna Bella er því eins og áður sagði efst á blaði þar en búist er við að hún og Heiðrún Sigurðardóttir munu halda til keppni á norðurlandamóti sem haldið verður 23. Apríl í Helsinki í Finnlandi.

Samstarf norðurlandana í mótahaldi hefur legið niðri í nokkurn tíma en undanfarin ár hafa Norðmenn haldið keppnir sem hafa verið vel sóttar en þó mest af þeim sjálfum. Með þessu móti í Helsinki stendur til að endurvekja norðurlandamótin en á sínum tíma voru þetta mjög glæsileg mót og vel sótt. Á norðurlandamótinu er einnig keppt í vaxtarrækt og er líklegt að Magnús Bess Júlíusson komi til með að keppa þar í <95 kg flokki.

Evrópumótið í fitness verður haldið í Yalta í Úkraínu 20.  23. Maí, eða á sama tíma og söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva sem einnig er haldin í Úkraínu. Gert er ráð fyrir að Anna Bella og Heiðrún munu halda þangað til keppni og ennfremur á heimsmeistaramótið sem fram fer á Spáni í september. Sif Garðarsdóttir mun líklega einnig halda þangað til keppni en það mun skírast þegar nær dregur.

Sundurliðuð úrslit fitnesskeppninnar er að finna hér í PDF skjali.

Sækja PDF skjal með úrslitum.