Ólar, hnévafningar, belti og kalk eru líklega algengustu hjálpartækin í ræktinni. Lyftingamenn, kraftlyftingamenn, CrossFittarar og aðrar ræktarrottur nota þessi hjálpartæki til þess að fá stuðning, meiri gripstyrk eða styðja við liðamót. Það er hinsvegar allur gangur á því hvaða gagn þessi hjálpartæki gera og jafnvel deildar meiningar um ágæti þeirra.

Kalk er þetta hvíta duft sem í mörgum æfingastöðvum er illa séð vegna óþrifnaðar en notað er til að gefa betra grip og draga úr því að stöngin renni til i svita. Svo undarlegt sem það kann að virðast eru takmarkaðar rannsóknir sem sýna fram á að kalk geri það gagn sem því er ætlað. Kalk er bannað í mörgum æfingastöðvum vegna sóðaskapar sem fylgir því en engu að síður laumast hörðustu ræktarrotturnar til að nota það þegar mikið liggur við.
Ólar eru einnig vinsælar til að bæta gripið og þær er hægt að nota í mörgum æfingum. Réttstöðulyftan er sú æfing sem helst þarf á ólum að halda en einnig nota menn ólar í ýmsum afbrigðum af snörun og jafnhöttun. Ólar eru mjög gagnlegar til að draga úr álagi á gripið sjálft og geta þannig stuðlað að því að hægt sé að taka meiri þyngdir. Á móti kemur sá ókostur að þær draga úr gripstyrk þegar upp er staðið vegna minna álags á framhandleggsvöðvana í þessum æfingum.

Hnéhlífar, hnésmokkar og vafningar auka stuðning við liðamót og geta aukið árangur en geta einnig breytt hreyfiferlinum sem getur aukið hættu á meiðslum. Hnévafningar geta þannig þrýst of mikið á hnéskélina og lagt of mikið álag á undirlagið við beinið.
Lyftingabelti auka þrýsting í kviðholinu sem herðir kjarnastyrkinn og auka þannig getuna til að taka á. Það er hinsvegar óráðlegt að nota belti þegar gerðar eru margar endurtekningar þar sem beltið dregur úr álagi og áhrifum æfingarinnar á kjarnvöðvana. Þegar upp er staðið er því ekki ráðlegt að nota belti nema í mestu átökunum.

Hægt er að fá stuðningsfatnað og hinar ýmsu stuðningshlífar í dag sem geta flýtt fyrir hvíld eftir mikið æfingaálag. Tilgangur þessara hjálpartækja er ýmist að verjast meiðslum eða gefa færi á meiri átökum fyrir ákveðna vöðvahópa en gott er að hafa í huga að þau draga úr álagi og þar af leiðandi draga þau úr þjálfun þeirra vöðva sem annars myndu styrkjast við æfingarnar.
(Strength and Conditioning Journal, 33 (3): 11-17, 2016)