Hvernig stendur á því að sífellt kemur á markaðinn eitthvað nýtt sem sagt er byltingarkennt  sem megrunaraðferð og er hvert annað vitlausara? Sennilega er það vegna þess að þar er um að ræða atriði sem auðvelt er að setja þannig fram að þau blekki fólk. Það sem hefur verið einna mest áberandi eru ýmsar pillur, súpur, drykkir, tæki og tól sem eiga að hafa stórkostleg megrunaráhrif.

Leikur að tölum
Einn ónefndur megrunarkúr sem notaður hefur verið hér á landi byggist á því að taka nokkrar pillur á dag. Sérstakur matseðill fylgir með sem samanstendur af 1100 hitaeiningum og fylgir sögunni að séu einungis töflurnar teknar sé hægt að léttast um 1,5 – 2.0 kíló á viku en sé farið eftir matseðlinum sé hægt að léttast um 3,0 – 5,0 kíló fyrstu vikurnar.
Þarna er blekkingin eins og hún gerist best. Sá maður sem borðar einungis 1100 hitaeiningar léttist örugglega hvort sem hann tekur einhverjar pillur eða ekki. Veltum þessu fyrir okkur með smá dæmi: Tuttugu og fimm ára maður sem er 180 cm á hæð, 92 kíló, og  æfir einhverja íþrótt lítillega þrisvar í viku þarf að vera á u.þ.b 2700 hitaeiningum á dag til þess að halda sér í þyngdarjafnvægi. Það þarf að brenna u.þ.b 7000 hitaeiningum til þess að losna við eitt kíló af fitu. Það þýðir að þessi tiltekni maður þarf að minnka við sig hitaeiningarnar um 2000 á dag til þess að ná að léttast um 2,0 kíló á viku. Þá á hann ekki eftir nema 700 hitaeiningar til þess að tóra á og þeir sem hafa prófað það vita að það gengur ekki lengi. Hvernig í ósköpunum eiga töflur að fara að því að brenna 2000 hitaeiningum á dag? Jú það er greinilegt að þarna er um að ræða hjákátlega sölubrellu.

Einnig hafa verið á boðstólnum súpur sem eiga að vera svipuðum eiginleikum gæddar. Þar fylgir einnig sögunni að það eigi að láta sér nægja 1000 – 1250 hitaeiningar á dag en ekki þurfi að telja hitaeiningarnar!  Það að vera einungis á þetta fáum hitaeiningum gerir það að verkum að fólk léttist. Það er hins vegar ekki súpunum að þakka heldur því að einungis var borðað 1000 – 1250 hitaeiningar.  Samt sem áður segja auglýsingarnar ekki það sama og leiðbeiningar um notkun sem fylgja pakkanum. Þar er komist svo að orði að súpurnar hjálpi einungis við megrun séu þær notaðar samhliða hitaeiningastýrandi megrunarkúr. Þar er um allt annað að ræða þar sem ekkert er bogið við þess háttar fullyrðingar.