MyndFreyja Sigurðardóttir fór á heimsmeistaramótið í fitness sem haldið var í Rio de Janeiro í Brasilíu og náði þar 15 sæti.

Það var langt ferðalag sem fylgdi því að fara á heimsmeistarakeppnina í fitness sem haldin var í Rio de Janeiro í Brasilíu. Undirritaður sem stuttu áður fékk alþjóðleg dómararéttindi hélt þangað ásamt Freyju Sigurðardóttur Íslandsmeistara í fitness og unnusta hennar Jakobi Má Jónharðssyni. Upphaflega stóð til að þrír keppendur myndu fara á heimsmeistaramótið, en Sif Garðarsdóttir sem fyrr á árinu komst í 15 manna úrslit á Evrópumótinu sem haldið var í Kiev í Úkraínu varð ólétt og Sigurlína Guðjónsdóttir sem hafnað hafði í þriðja sæti á síðasta Íslandsmóti tilkynnti að hún ætlaði ekki að fara á heimsmeistaramótið. 

Mynd

Freyja Sigurðardóttir var tvímælalaust í sínu besta formi sem gerði okkur bjartsýn á að hún myndi komast í 16 manna úrslit. Keppinautarnir voru það sömuleiðis, enda mættu þarna bestu keppendurnir víðsvegar að úr heiminum  frá alls 36 löndum  og því ljóst að keppnin yrði erfið. Keppt var í þremur hæðarflokkum og Freyja var í stærsta flokknum en í honum var 21 keppandi. Það var mikill léttir að sjá að Freyja komst í 16 manna úrslit í forkeppninni. Þeir sem komast ekki í úrslit þurfa ekki að sýna danslotuna, en daginn eftir hafnaði Freyja í 11 sæti í danslotunni en hafnaði í 15 sæti í heildarkeppninni sem engu að síður er besti árangur íslendinga til þessa á heimsmeistaramóti.

Öryggisgæslan í kringum allt í keppninni var mikil og bar þess augljósan keim að hryðjuverkin í Bandaríkjunum höfðu haft áhrif. Mikill fjöldi keppenda, dómara, fulltrúa og fylgismanna voru mættir til Rio, líklega rúmlega 300 manns sem voru á tveimur hótelum. Keppendur voru á öðru hóteli en dómarar og fulltrúar hvers lands og að sögn var þeim skipt upp vegna öryggismála. Hinsvegar voru einungis 200 metrar á milli hótelana.

Mynd

Lisser Frost Larsen var yfirdómari á heimsmeistaramótinu, en hún hefur jafnframt verið yfirdómari á Íslandsmótunum hér á landi. Fram kom í ræðu sem hún hélt á fundi fyrir keppnina að fyrirmæli hefðu verið lögð fyrir dómara um að draga úr gildi vöðvamassa í dómum sínum þar sem ekki væri ætlunin að fitnesskeppnirnar færu sömu leið og vaxtarræktarmótin gerðu með sívaxandi öfgum.

Það fór kliður um salinn þegar Rafael Santonja tilkynnti að allir keppendur í vaxtarræktinni ættu að fara í sérstakt próf sem var hluti af rannsókn á nýrri prófunaraðferð til að leita að ýmsum eiturlyfjum og ólöglegum efnum. Prófið sem tók ekki nema 10 mínútur að fá niðurstöður úr var framkvæmt þannig að tekið var blóðsýni úr keppendunum. Ekki kom fram að neinn hefði fallið á þessu skyndiprófi.

Sjá mun fleiri myndir frá HM í myndasafninu.