eiturlyf23Alls hafa 18 fylki Bandaríkjanna lögleitt kanabisreykingar í læknisfræðilegum tilgangi. Kanabis dregur úr verkjum þegar ákveðnir kvillar eru annars vegar sem þykir réttlæta lögleiðinguna sem er þó takmörkunum bundin. Færð hafa verið rök fyrir því að kanabis sé minna skaðlegt en áfengi, tóbak og jafnvel eiturlyf eins og heróín. Hér er reyndar aldeilis ekki um skaðlítil efni að ræða en að auki hefur verið bent á að kanabis hafi takmörkuð ávanabindandi áhrif og hafi minni áhrif á lungun en sígarettur. Á þessum meintu kostum kanabis er þó einn galli, eiginlega risastór galli. Kanabis hefur viðamikil skaðleg áhrif á heilann. Það veldur minnistapi, dregur úr einbeitingu og er bendlað við geðklofa. Fólk sem hefur byrjað að reykja kanabis ungt að árum kemur mun verr út úr greindarprófum og prófum sem snúa að andlegri getu. Kanabis hefur því tvímælalaust neikvæðar afleiðingar fyrir heilbrigði okkar rétt eins og áfengi, tóbak og önnur eiturefni sem menn telja upp til samanburðar við kanabis. Þrátt fyrir að kanabis hafi verið lögleitt er ekki þar með sagt að það sé hollt.

(The New York Times, 7. janúar 2013)